Fréttasafn



14. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

SI vilja ganga lengra og fá öflugt innviðaráðuneyti

Samtök iðnaðarins telja rétt að ganga lengra en að sameina Íbúðalánasjóð og Mannvirkjastofnun í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að auka enn frekar skilvirkni og yfirsýn í málaflokknum. Þetta kemur fram í umsögn SI um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem birt hefur verið á Samráðsgátt stjórnarráðsins. Í umsögninni segir að í því samhengi beri að nefna að skipulagsmál, sem séu nátengd húsnæðis- og mannvirkjamálum, séu á hendi sveitarstjórnarráðuneytisins og skipulagsstofnunar en húsnæðis- og mannvirkjamál hjá félagsmálaráðuneytinu og rétt sé að skipulagsmál séu innan sama ráðuneytis og mannvirkjamál og úr verði öflugt innviðaráðuneyti.

Tryggja að eftirlit verði skilvirkt og samræmt um allt land

Þá árétta SI í umsögninni mikilvægi þess að umrædd sameining veiki ekki eftirlit í mannvirkjagerð heldur sé þvert á móti tryggt að eftirlit verði skilvirkt og samræmt um allt land. Þurfi af þeirri ástæðu að efla samræmingarhlutverk stofnunarinnar og tryggja enn frekar að byggingarfulltrúaembætti innan sveitarfélaganna framkvæmi eftirlit með samræmdum hætti. 

Jafnframt benda samtökin á að við sameiningu umræddra stofnana þurfi að tryggja að stjórnkerfi innan stofnunarinnar sé einfalt og aðgengilegt. Óskýrleiki sé til þess fallinn að auka kostnað, hjá almenningi, fyrirtækjum og stofnuninni sjálfri. Það sé mat SI að skoða ætti að setja á fót nýja kærunefnd húsnæðis- og mannvirkjamála til að tryggja skilvirkni og skjóta afgreiðslu kærumála á þessu sviði.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.