Fréttasafn4. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Síðasta ár mjög stórt í íslenskum kvikmyndaiðnaði

„Í grunninn var 2020 mjög stórt ár vegna þess að það var vöntun á sjónvarpsefni og það var eingöngu hægt að framleiða efni í örfáum löndum. Ísland var eitt af fáum löndum í heiminum sem höfðu góða stjórn á faraldrinum sem gerði það að verkum að erlendir aðilar gátu komið hingað til þess að taka upp efni,“ segir Lilja Ósk Snorradóttir, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, og framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus, í frétt Viðskiptablaðsins. Hún segir að það hafi einnig verið mikið að gera í innlendum verkefnum í fyrra og heilt yfir hafi 2020 því verið mjög gott ár í kvikmyndagerð hér á landi.

Í fréttinni kemur fram að síðasta ár hafi verið annað veltumesta ár frá upphafi en heildarvelta í kvikmyndaiðnaði hafi numið 18,7 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt tölum Samtaka iðnaðarins, og þar af var stór hluti vegna tekna frá erlendum kvikmyndaverkefnum hér á landi. Til samanburðar hafi velta kvikmynda- og sjónvarpsþáttaiðnaðar verið 12,9 milljarðar árið 2019.

Hækka endurgreiðslu til að laða erlend verkefni til Íslands

Lilja segir í Viðskiptablaðinu að sameiginlegt átak SÍK og Íslandsstofu, í samvinnu við Landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið, um að setja á fót verklagsreglur, þannig að erlend kvikmyndaverkefni gætu komið til Íslands til að taka upp þrátt fyrir faraldurinn, hafi leikið mikilvægt hlutverk í að hægt væri að fá þessi verkefni til landsins en nú sé staðan hins vegar allt önnur þar sem búið sé að opna flest lönd á ný. Samkeppnin hafi því harðnað á ný og árið 2021 fari hægar af stað en 2020. „Sum af okkar samkeppnislöndum hafa gripið til þess ráðs að hækka endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, auk ýmissa annarra ívilnana, til þess að laða til sín verkefni. Það hefur myndast ákveðin stífla innan kvikmyndagerðar á heimsvísu vegna faraldursins og mörg verkefni sem bíða eftir því að komast í tökur. Það er hörð barátta um hvert verkefni.“ Hún hvetur stjórnvöld því til þess að skoða það alvarlega að hækka endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, auk annarra ívilnana, til þess að laða erlend verkefni til Íslands. Hún kveðst einnig hafa áhyggjur af því að innlendum verkefnum muni fækka í ár. „Það var mikið að gera í innlendum kvikmyndaverkefnum í fyrra en þeim hefur farið fækkandi í ár. Ein ástæða fyrir því er að í fyrra var lítið hægt að ferðast út til þess að sækja styrki og fjármagn frá fjárfestum til þess að fjármagna þessi verkefni. Innlendu verkefnin koma einnig með töluvert af erlendu fjármagni til landsins, því þau eru sjaldnast einungis fjármögnuð með innlendu fjármagni.“

Viðskiptablaðið / vidskiptabladid.is,  3. júní 2021.