Sigurður Már er kökugerðarmaður ársins
Sigurður Már Guðjónsson, eigandi Bernhöftsbakarís og formaður Landssambands bakarameistara, var um helgina valinn kökugerðarmaður ársins (UIBC World Confectioner of the Year 2022) sem er æðsta viðurkenning sem kökugerðarmönnum getur hlotnast í heiminum. Tilkynnt var um valið á heimsþingi alþjóðasamtak bakara og kökugerðarmanna, UIBC – International Union of Bakers and Confectioners, sem fór fram á Íslandi. Einnig var tilkynnt um val á bakara ársins (UIBC World Baker of the Year 2022) sem er Axel Schmitt frá Þýskalandi.
Innan alþjóðasamtakanna eru 300.000 bakarí og kökugerðir í 5 heimsálfum. Samtökin voru stofnuð 1931 í Búdapest í Ungverjalandi. Samtökin standa að fjölmörgum heimsmeistaramótum líkt og heimsmeistaramóti ungra bakara, heimsmeistaramóti ungra konditora, heimsmeistaramóti bakarameistara og heimsmeistaramóti konditormeistara. Auk þess veita samtökin framúrskarandi fagfólki viðurkenningar.
Myndir/Odd Stefán.
Sigurður Már Guðjónsson tekur við viðurkenningunni.
Axel Schmitt og Sigurður Már Guðjónsson.
Frettabladid.is, 12. september 2022.
Morgunblaðið, 12. september 2022.
RÚV, 11. september 2022.