Fréttasafn



12. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Menntun Samtök rafverktaka

Símenntun mikilvæg í rafiðngreinum

Það er ljóst að eftirspurn atvinnulífsins eftir þeim sem lagt hafa stund á nám í rafiðngreinum mun ekki dragast saman heldur stefnir í að hún aukist umtalsvert á næstu árum. Þessa dagana kann ástandið í samfélaginu að hafa dregið tímabundið úr eftirspurn eftir þjónustu rafiðnaðarmanna og nú er því kjörið tækifæri til að horfa inn á við og skerpa á þeirri þekkingu sem atvinnurekendur í rafiðnaði vilja að starfsmenn þeirra búi yfir. Þetta segir Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka rafverktaka og viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í grein sinni í Morgunblaðinu um símenntun í rafiðngreinum.

540 lokið sveinsprófi á síðustu 5 árum

Kristján segir að á síðustu fimm árum hafi rúmlega 540 karlar og konur lokið sveinsprófi í rafvirkjun og hafi mikil fjölgun orðið á þeim sem útskrifast með sveinspróf árlega. Menntun í rafiðngreinum ljúki þó ekki með sveinsprófi. Innan rafiðngreina eigi sér stað örar tækniframfarir sem hafi bein áhrif á starfsumhverfi greinarinnar frá degi til dags þar sem kallað sé á meiri sérhæfingu en áður. Þessi hraða tækniþróun geri því miklar kröfur til þeirra sem starfa við rafiðnað. Á sama tíma og huga þurfi að nýliðun í greininni sé símenntun nauðsynlegur liður í starfsumhverfi rafiðnaðarins.

Tækni morgundagsins ekki kennd í námi sem er sniðið að þörfum gærdagsins

Í grein sinni nefnir Kristján Rafmennt sem tryggi að hægt sé að koma nýrri þekkingu og færni hratt til rafiðnaðarmanna, atvinnulífinu og samfélaginu til hagsbóta. Hann segir að öflug tækniþekking og hugvit komi til með drífa nýsköpun áfram og skapi stærri skerf af hagvexti framtíðarinnar, hvort sem það sé hjá rótgrónum fyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum og að þar gegni starfsnámsskólar stóru hlutverki. En tækni morgundagsins verði ekki kennd í námi sem sniðið sé að þörfum gærdagsins og því megi ekki horfa framhjá mikilvægi símenntunar og þeim menntastofnunum sem henni sinna.

Í niðurlagi greinarinnar segir Kristján að það muni ekki standa á rafiðnaðinum þegar mæta skuli þörfum framtíðarinnar.

Hér er hægt að lesa grein Kristjáns í heild sinni.