Fréttasafn



12. nóv. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Sjálfbær stóll úr endurunnum álbikurum sigraði

Stóllinn Kollhrif, hannaður af Sölva Kristjánssyni hjá Portland, bar sigur úr býtum í samkeppni um sjálfbæra stóla í keppni sem fram fór á Íslandi á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og Hönnunarmiðstöð sá um hér á landi. Öll Norðurlöndin tóku þátt í keppninni og hefur nú hvert landanna valið stól sem verður sendur á sýningu um sjálfbærni á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í Póllandi í desember þar sem búist er við um 30 þúsund manns. Markmiðið með samkeppninni er að vekja umræðu um hugtakið „sjálfbærni í framleiðslu stóla“ auk þess að koma af stað samræðu um hagnýtar leiðir til að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Í Portland teyminu eru auk Sölva Kristjánssonar, hönnuðar, Karen Ósk Magnúsdóttir, listrænn stjórnandi, og Sóley Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri. Vinningsstóllinn verður einnig til sýnis í Werck hönnunargalleríinu í Kaupmannahöfn í eitt ár. Vakin verður athygli á stólnum og hönnuðum/framleiðendum hans í alþjóðlegri kynningaráætlun um sjálfbærni sem leidd verður af norrænu ráðherranefndinni. 

Í íslensku dómnefndinni eru Elísabet V. Ingvarsdóttir, Theodóra Alfreðsdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir. Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram að kollurinn sé í senn bæði nýsköpun og umhverfisvænn og sé gott dæmi um sjálfbæra hönnun. Kollurinn er úr 14.400 endurunnum álbikurum frá sprittkertum og korki sem eru bæði mjög umhverfisvæn efni. Hönnun kollsins snýr ekki aðeins að útliti hans heldur tekur hún einnig mið af umhverfisáhrifum, endurvinnslu-möguleikum og margnota gildi hans.

Hér er hægt að sjá yfirlit yfir þá 10 íslensku stóla sem komust í úrslit í keppninni.

Hér er hægt að nálgast yfirlit yfir þá stóla sem komust í úrslit hjá öllum Norðurlöndunum.

Hér er hægt að lesa um þá sem sitja í dómnefndum allra Norðurlandanna. 

Verdlaunastoll

Keppni-um-stola