Fréttasafn



5. sep. 2018 Almennar fréttir

Skapa þarf meiri fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun

Þegar litið er til framtíðar er ljóst að til að bæta efnahagsleg lífsgæði hér á landi þarf að auka gjaldeyristekjur umtalsvert og skapa meiri fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun. Þetta kemur fram í grein Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni Byggjum fjölbreytt efnahagslíf

Ingólfur segir að samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hafi versnað umtalsvert í þessari uppsveiflu. Laun í framleiðsluiðnaði hafi hækkað um 140% frá fyrsta ársfjórðungi 2010 mælt í evrum en til samanburðar hækkuðu laun í þeim hluta iðnaðarins um 20% í ESB-ríkjunum á sama tíma. Hækkuðu laun hér á landi mælt í evrum langt umfram það sem gerst hefur í nokkru öðru iðnvæddu ríki á tímabilinu. Hann segir að laun í greininni séu nú með því hæsta sem þekkist í samanburði við önnur lönd og samkeppnishæfni greinarinnar því skert á alþjóðlegum vettvangi. Komi þetta verst niður á þeirri gjaldeyrisskapandi starfsemi þar sem vægi launakostnaðar er hátt í heildarkostnaði. Við þetta bætist síðan hár innlendur fjármagnskostnaður og óhagstætt skattaumhverfi.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Ingólfur líklegast til árangurs að ráðast í þá þætti sem gætu aukið samkeppnishæfni atvinnuveganna, m.a. iðnaðar sem vegi um 23% af landsframleiðslu. Leggja þurfi áherslu á stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi fyrirtækja, öfluga menntun, mikla nýsköpun og sterka innviði og núna sé rétti tíminn til að ráðast í þessar aðgerðir.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.