Skapa þarf skilyrði fyrir efnahagslegt jafnvægi
Leiðin til bættra lífskjara er yfirskrift greinar Ingólfs Bender, aðalhagfræðing SI, í ViðskiptaMogganum þar sem hann segir að til að skapa skilyrði fyrir efnahagslegt jafnvægi þarf að leggja áherslu á samkeppnishæfni og aukna framleiðni, efla þurfi framleiðslugetu hagkerfisins og mynda þannig grundvöll þess að saman geti farið aukin verðmætasköpun og stöðugleiki.
Ingólfur segir að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hafi sett sér metnaðarfull markmið um að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Með áherslu á að ná stjórn á fjármálum ríkisins með hagræðingu og endurbætur á opinberri stjórnsýslu sé markmiðið að skapa skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu og vaxtastig og aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu. Hann segir að verðbólga hafi á undanförnu ári lækkað verulega, úr rúmlega 10% í upphafi árs 2023 niður í 4,8%. Þessi hjöðnun, ásamt lækkandi verðbólguvæntingum, hafi leitt til þess að Seðlabanki Íslands hafi frá því í október á síðasta ári lækkað stýrivexti úr 9,25% í 8,5%. Með lækkun verðbólgu og vaxta létti á fjármagnskostnaði heimila og fyrirtækja og myndist svigrúm fyrir nýfjárfestingu og hagvöxt. Ingólfur segir mikilvægt að stjórnvöld stuðli að því að þessi þróun haldi áfram.
Ísland getur náð miklum framförum á skömmum tíma
Þá kemur fram í grein Ingólfs að í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga hafi Samtök iðnaðarins lagt fram 30 umbótatillögur að aukinni samkeppnishæfni undir yfirskriftinni Hugmyndalandið. Þar hafi verði bent á að samtakamátturinn og viljinn til uppbyggingar hafi fært okkur stóra sigra. „Með elju og staðfestu höfum við fjárfest í innviðum, samgöngum, fjarskiptum, húsnæði, nýsköpun og menntun og með því skapað frjóan jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og velsæld. Við höfum sýnt að með hugmyndum, góðum ákvörðunum, framkvæmdum og samtakamætti getur Ísland náð miklum framförum á skömmum tíma.“
Jákvætt að ný ríkisstjórn ætli að bregðast við áskorunum
Ingólfur segir í greininni að Ísland standi frammi fyrir áskorunum sem krefjist nýrrar sóknar. Áskoranirnar lúti að stórum hluta að því að framleiðslugeta hagkerfisins hafi ekki vaxið í takti við þarfir efnahagslífsins á síðustu árum. Það sé jákvætt að ný ríkisstjórn ætli að bregðast við þessum áskorunum með því m.a. að styðja við nýsköpun, fjölga íbúðum hratt, tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði, fjárfestingu í samgöngum, auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi raforku og sækja fram í menntamálum. Hann segir að með uppbyggingu megi skapa skilyrði stöðugleika og hagvaxtar.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
ViðskiptaMogginn / mbl.is, 15. janúar 2025.