Skattspor iðnaðar er 462 milljarðar króna
Í nýrri greiningu SI kemur fram að skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, sé umfangsmikið enda greinin stór hér á landi. Nam heildarskattspor iðnaðar 462 mö.kr. árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics en SI fengu fyrirtækið til þess að reikna skattspor iðnaðarins fyrir árið 2022 með sambærilegum hætti og hefur verið gert fyrir aðrar atvinnugreinar. Þröngt skattspor iðnaðarins er 213 ma.kr. og er það stærst allra útflutningsgreina. Til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 92 ma.kr. og sjávarútvegsins 85 ma.kr. árið 2022. Skattspor iðnaðarins hefur stækkað síðustu ár en það nam 370 mö.kr. árið 2020 á verðlagi ársins 2022. Á tímabilinu frá 2017 til 2022 er samanlagt heildarskattspor iðnaðarins 2.441 ma.kr.
Í skýrslu Reykjavik Economics kemur fram að atvinnugreinar sem og stórfyrirtæki hafi verið undir sívaxandi þrýstingi að gera grein fyrir skattspori sínu. Mörg fyrirtæki hafi brugðist við því með því að birta skattspor sitt. Nú sé brugðist við þessu ákalli fyrir iðnaðinn hér á landi. Útreikningurinn á skattsporinu taki til allra skatta og gjalda sem fyrirtæki í greininni greiða.
Hér er hægt að nálgast greiningu SI.
mbl.is, 20. mars 2024.
Innherji, 20. mars 2024.