Fréttasafn



3. des. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skilningsleysi á mikilvægi aukinnar skilvirkni

Samtök iðnaðarins óttast að frumvarp um breytingar á skipulagslögum, 275. mál, sé til marks um skilningsleysi á mikilvægi þess að auka skilvirkni í skipulagsmálum. Samtökin skora því á stjórnvöld að standa við þau fyrirheit að hrinda í framkvæmd raunverulegum úrbótum í skipulags- og byggingamálum, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum og samkeppnismats OECD. Leggja samtökin til að skipaður verði starfshópur sem hafi það verkefni að sameina tillögur og útfæra nánar. Þetta kemur fram í umsögn SI sem send hefur verið umhverfis- og samgöngunefnd. Í umsögninni lýsa samtökin yfir verulegum vonbrigðum með hversu skammt er gengið í því að auka skilvirkni skipulagsmála í frumvarpinu.

Tillögur átakshóps í húsnæðismálum virtar að vettugi

Í umsögninni kemur fram að samtökin hafi talað fyrir mikilvægi þess að einfalda og auka skilvirkni skipulagsmála árum saman. Nú liggi fyrir skýrsla átakshóps í húsnæðismálum auk samkeppnismats OECD sem undirstriki mikilvægi þess að ráðist verði í gagngera endurskoðun á regluverkinu og framkvæmdinni allri. Til þess þurfi samstillt átak og umfangsmiklar breytingar á skipulagslögum. Að mati samtakanna sé ljóst að í frumvarpinu sé með engu móti gerð tilraun til að einfalda og auka skilvirkni í skipulagsmálum og að tillögur átakshóps í húsnæðismálum séu virtar að vettugi. 

Óskilvirkt skipulagsferli

Þá segir í umsögninni að Samtök iðnaðarins hafi ítrekað, undanfarin ár, vakið athygli á því að skipulagsferli sé og hafi heilt yfir verið allt of þungt í vöfum, ekki síst hjá stærstu sveitarfélögum landsins. Fjöldi mála fari of hægt í gegnum ferlið, skortur sé á skýrum tímafrestum og hvenær von sé á niðurstöðu. Skipulagsferlið sé því óskilvirkt og tækifæri liggi í einföldun.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.