Fréttasafn



23. ágú. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Skólastjórnendur kynna sér íslenska menntatækni

Skólastjórar frá Eistlandi og Lettlandi ásamt forsvarsfólki Ungra frumkvöðla heimsóttu Samtök iðnaðarins í dag í Húsi atvinnulífsins í þeim tilgangi að kynnast íslenskri menntatækni. 

Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja, kynnti fyrirtæki sitt Evolytes og forrit sem stuðlar að því að nemendur frá unga aldri læri grunn stærðfræðinnar. Í erindi hennar kom fram að Evolytes námskerfið notar árangursríkar aðferðir til að kenna börnum 5-10 ára stærðfræði hraðar. 

Helgi Karlsson frá Beanfee kynnti menntatæknifyrirtækið sitt sem hefur sýnt góðan árangur í að hvetja börn sem eru með hegðunarvanda í átt að betri líðan og námsárangri. Hann sagði Beanfee hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra í því að breyta hegðun. 

Ungir frumkvöðlar sem var stofnað 2002 er félag í alþjóðasamtökunum JA sem starfa í 123 löndum. Um 10,5 milljón nemenda taka þátt í verkefnum á vegum samtakanna víðs vegar um heiminn. Markmið JA er að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum. JA fyrirtækjasmiðja er nú í 18 framhaldsskólum hér á landi en í nokkrum löndum er verkefnið á öllum skólastigum.

Í stjórn JA á Íslandi eru fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins, Landsvirkjun, Arion banka, Sjávarklasanum og Háskólanum í Reykjavík.

Gestirnir frá Eistlandi og Lettlandi ásamt Petru Bragadóttur sem er framkvæmdastjóri JA á Íslandi, Huldu Birnu Kjærnested Baldursdóttur, verkefnastjóra í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, Írisi E. Gísladóttur hjá Evolytes og Helga Karlssyni hjá Beanfee.

Fundur-23-08-2023_1Íris E. Gísladóttir hjá Evolytes kynnti sitt fyrirtæki. 

Fundur-23-08-2023_2Helgi Karlsson hjá Beanfee.