Fréttasafn



18. maí 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Skortir samræmi hjá sveitarfélögum í beitingu stöðuleyfa

Ljóst er að það skortir verulega á samræmingu milli sveitarfélaga hvað varðar beitingu reglna um stöðuleyfi og óvíst er hvort leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar sé fylgt eftir. Samtök iðnaðarins telja nauðsynlegt að ráðist verði í endurskoðun þessara reglna og að aukið samræmi verði tryggt. Þetta kom meðal annars fram á opnum fundi sem  Samtök iðnaðarins efndu til síðastliðinn þriðjudag í Kviku í Borgartúni 35. 

Álitaefni um stöðuleyfi - Hvar má gámurinn vera? var yfirskrift fundarins þar sem fjallað var um stöðuleyfi en upp hafa komið ýmis álitaefni um framfylgd sveitarfélaga á ákvæðum byggingarreglugerðar um stöðuleyfi. Mannvirkjastofnun gaf út leiðbeiningar um umsókn stöðuleyfa á síðasta ári og var farið  yfir þær reglur sem gilda og þau álitamál sem uppi eru. Að erindum loknum var efnt til umræðna. Fundarstjóri var Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast glærur fundarins. 

Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI -  Stöðuleyfi fyrir gáma á atvinnulóðum – ferill málsins. Björg Ásta fór yfir feril málsins innan SI og greindi frá afstöðu samtakanna hvað varðar túlkun ákvæða laga um mannvirki og byggingarreglugerðar um stöðuleyfi.

Ingibjörg Halldórsdóttir, lögmaður hjá Land lögmönnum og fyrrverandi lögfræðingur Mannvirkjastofnunar -  Ákvæði byggingarreglugerðar um stöðuleyfi. Ingibjörg fór yfir ákvæði byggingarreglugerðar um stöðuleyfi og kom inn á leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar sem gefnar voru út í lok nóvembermánaðar síðasta árs en hún vann umræddar leiðbeiningar og hefur því þekkingu á þessum málum.

Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga - Nokkur álitaefni varðandi kröfur sem sveitarfélög gera til gáma á atvinnulóðum. Tryggvi flutti erindi um kröfur sveitarfélaga til gáma á atvinnulóðum og gerði m.a. athugasemdir við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar. Hann velti því m.a. upp hvort færa ætti reglugerðarákvæði varðandi stöðuleyfi fyrir gáma til þess horfs sem gildir um sorpílát og geymslur, þ.e. að fjöldi og gerð gáma á atvinnulóðum færi eftir kröfum viðkomandi sveitarfélags.

 

Mynd10

Mynd5_1526653567705

Mynd7_1526653633324

Mynd4_1526653657282

Mynd8_1526653675811

Mynd6_1526653700727