Fréttasafn



11. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Menntun

Skortur á faglærðu starfsfólki dregur úr samkeppnishæfni

„Ef ekki tekst að fjölga nemendum í iðn- og tækninámi, eða ef þessi hluti skólakerfisins er ekki efldur, mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag og efnahag,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu um ályktun Iðnþings. 

„Skortur á faglærðu starfsfólki hamlar vexti fyrirtækja, dregur úr framleiðni og dregur úr samkeppnishæfni Íslands. Iðnaður og tæknigreinar skapa gríðarleg verðmæti, en án nægilegrar menntunar og þjálfunar munu tækifæri til nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar fara forgörðum,“ segir Árni í fréttinni. 

Þurfum að tryggja að við eigum nægan mannauð

Þá er haft eftir Árna að til að tryggja framtíðarhag Íslands þurfum við því að vera einbeitt í því að efla iðn- og tæknimenntun. „Auka þarf virðingu fyrir starfsmenntun og bæta aðgengi að námi. Að öðrum kosti mun Ísland ekki geta nýtt þau tækifæri sem tæknibylting og græn umskipti bjóða upp á. Okkur ber stöðugt að efla íslenskt menntakerfi til að mæta örum tæknibreytingum og færniþörfum framtíðarinnar. Nú sem endranær þurfum við að tryggja að við eigum nægan mannauð í fjölbreyttum greinum til að geta áfram vaxið og dafnað eins og best gagnast heildinni. Fyrir fámenna þjóð skiptir hvert og eitt okkar máli í þeim efnum.“

Morgunblaðið, 11. mars 2025.

Morgunbladid-11-03-2025