Fréttasafn



12. des. 2025 Almennar fréttir

Skýr merki um kólnun í hagkerfinu

  „Það eru skýr merki um kólnun í hagkerfinu. Við sjáum að atvinnuleysi er að aukast og í iðnaði er samdráttur milli ára og launþegum hefur fækkað,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu um könnun um efnahagshorfur sem birtar voru í gær. „Þessar niðurstöður um minni bjartsýni um efnahagshorfur eru algjörlega í takt við það sem við höfum séð upp á síðkastið, meðal annars í könnun Maskínu meðal stjórnenda fyrirtækja sem unnin var fyrir Samtök iðnaðarins og birtist í nóvember. Við sjáum áföll í útflutningsgreinum eins og hjá Norðuráli á Grundartanga þar sem tveir þriðju framleiðslunnar eru úti. Við sjáum að Elkem hefur dregið úr framleiðslu, PCC á Bakka hefur hætt starfsemi tímabundið, flugfélagið Play féll og fréttir eru um uppsagnir á markaðnum í hverjum mánuði, sem allt eru skýr merki um kólnun.“ 

Víða blikur á lofti í atvinnulífinu - heimsviðskipti þurfa að finna nýtt jafnvægi

Þá segir Sigurður í frétt Morgunblaðsins að ef horft sé á spár Seðlabankans þá megi sjá að spenna í þjóðarbúskapnum hefur nú þróast yfir í slaka. „Það er öndvert við fyrri spár, en nú er spáð slaka alveg til 2028. Það kemur því ekki á óvart að væntingar stjórnenda fyrirtækja taki mið af þessari þróun.“ Hann segir að hátt vaxtastig sé einnig farið að bíta. „Í þessari stöðu hefur ekki hjálpað til hvernig ríkisstjórnin hefur hækkað álögur á atvinnuvegi og boðað auknar álögur á aðrar greinar. Má þar nefna sjávarútveg, ferðaþjónustu og orkusækinn iðnað.“ Sigurður nefnir m.a. skýrslu Umhverfis- og orkustofnunar frá því í júní sem sýnir hvernig raforkukostnaður hefur stóraukist undanfarin fimm ár. „Það dregur úr samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar og ég myndi segja að víða væru blikur á lofti í atvinnulífinu.“ Hann segir að það blási aðrir vindar á alþjóðamörkuðum en áður sem skapi óvissu sem muni vara áfram. „Heimsviðskiptin þurfa að finna nýtt jafnvægi og það mun taka tíma.“

Morgunblaðið / mbl.is, 12. desember 2025.