Fréttasafn



20. sep. 2021

Skýr skilaboð um stöðugleika til næstu ríkisstjórnar

Stjórnendur íslenskra iðnfyrirtækja vilja stöðugleika. Það eru skýr skilaboð til næstu ríkisstjórnar. Með aðgerðum sem auka stöðugleika efla stjórnvöld samkeppnishæfni atvinnulífsins, framleiðni eykst og efnahagsleg lífsgæði landsmanna batna. Látum næsta kjörtímabil verða tíma stöðugleika. Þetta segja Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í helgarútgáfu Morgunblaðsins.

Þeir segja að sóknarfærin til bættra lífsgæða landsmanna felist í leiðum til að auka stöðugleika. Stöðugt starfsumhverfi sé lykillinn að samkeppnishæfu atvinnulífi en samkeppnishæfni sé nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Atvinnulíf sem býr við stöðugleika sé best til þess fallið að skapa störf og verðmæti fyrir fólkið í landinu. Með stöðugu starfsumhverfi skapist skilyrði til aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma. Stöðugleikinn skapi fyrirsjáanleika og eykur fjárfestingu í þáttum sem auka framleiðni. Spurningin um hvernig við sköpum stöðugt starfsumhverfi sé því spurningin um hvernig við aukum lífsgæði til framtíðar.

Stöðugleiki mikilvægur til að skapa störf og verðmæti

Þá segir í greininni að í nýrri könnun sem gerð hafi verið meðal stjórnenda iðnfyrirtækja komi fram að 98% þeirra segja að stöðugt starfsumhverfi skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja og sama hlutfall segir að næsta ríkisstjórn eigi að leggja mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Árni og Sigurður segja að þetta háa hlutfall undirstriki mikilvægi stöðugleika fyrir samkeppnishæfni atvinnulífsins og getu þess til að skapa störf og verðmæti.

Átta flokkar af níu áfoma að skapa stöðugleika á næsta kjörtímabili

Þá segir í greininni að eftir fáeina daga sé gengið til alþingiskosninga. Átta af níu flokkum sem tóku þátt í kosningafundi SI svöruðu könnun sem sneri að þeim þáttum sem mest áhrif hafa á samkeppnishæfni fyrirtækja. Áhugavert og jákvætt sé að allir átta flokkarnir sem svöruðu könnuninni áforma að skapa stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja á næsta kjörtímabili. Þessir flokkar séu Flokkur fólksins, Framsókn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og VG.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 18. september 2021.

Morgunbladid-18-09-2021-2-