Fréttasafn17. maí 2022 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Smáforritið Rafmennt Öryggi afhent með formlegum hætti

Smáforritið Rafmennt Öryggi sem heldur utan um einstaklingsbundin áhættumöt iðnaðarmanna var afhent með formlegum hætti á aðalfundi Rafmenntar 11. maí síðastliðinn. Það var Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar, sem afhenti Jóni Sigurðssyni, formanni Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins, og Guðmundi Helga Þórarinssyni, fulltrúa Húss fagfélaganna, smáforritið til frjálsar notkunar fyrir félagsmenn þeirra og hvatti til aukinnar umræðu um öryggismál iðnaðarmanna.

Að frumkvæði Samtaka rafverktaka, SART, var Rafmennt falið að leita eftir samstarfi við Landsvirkjun um forritið LV öryggi sem Landsvirkjun hafði haldið úti um árabil. Landsvirkjun tók mjög vel í þetta erindi og gaf Rafmennt forritið LV öryggi sem hefur síðan þá verið í mikilli þróun og heitir í dag Rafmennt öryggi og var sett inn á Playstore og Appstore um mitt ár 2021.

Öryggismál rafiðnaðarmanna hafa undanfarin ár orðið fyrirferðameiri í umræðu um vinnustaði og vinnuumhverfi. SART hefur leitt umræðuna um mikilvægi öryggismála meðal löggiltra rafverktaka og má þar t.d. nefna verkefnið „Einn lás, eitt líf“ sem var samvinnuverkefni Samtaka rafverktaka, Rafiðnaðarsambands Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ætlað til að draga úr hættu á slysum og óhöppum af völdum óæskilegrar eða óvæntrar spennusetningar rafbúnaðar.

Á myndinni eru Kristján Kristinsson, öryggisstjóri Landsvirkjunar, Jón Sigurðsson, formaður Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins, Margrét Halldóra Arnarsdóttir, stjórnarformaður Rafmennt, Guðmundur Helgi Þórarinsson, fulltrúi Húss fagfélaganna, og Hjörleifur Stefánsson, formaður SART.