Solid Clouds á markað
Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds sem er aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins stefnir á í samstarfi við Arion banka að skrá sig á First North markaðinn á Íslandi samtímis því sem félagið er að sækja sér meira fjármagn í almennu hlutafjárútboði líkt og kemur fram í frétt Fréttablaðsins. Sigurlína Ingvarsdóttir, fyrrverandi framleiðandi á tölvuleikjunum FIFA og Star Wars Battlefront, tók nýverið við stjórnarformennsku félagsins.
Í Fréttablaðinu segir Stefán Gunnarsson, meðstofnandi og forstjóri Solid Clouds, að horft sé til þess að selja um það bil 25-30% hlut í fyrirtækinu til að fjármagna gerð tölvuleikja en næsti tölvuleikur félagsins mun koma út um mitt næsta ár. Ekki sé hægt að gefa upp hve stórt útboðið verði að svo stöddu. „Hluthafar eru 172. Þetta er því skynsamlegt næsta skref í sögu félagsins.“
Hann segir í Fréttablaðinu að Solid Clouds vilji gefa út tölvuleiki á þriggja ára fresti. „Það dregur úr áhættu í rekstri að hafa nokkra tekjustofna í stað þess að treysta á einn tölvuleik og eykur það verðmæti fyrirtækisins. Hluti af viðskiptamódeli okkar er að flýta þeim hraða sem það tekur að þróa leiki.“
Í fréttinni segir frá því að einstaklingar sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði fyrir allt að 15 milljónir króna geti lækkað tekjustofn sinn um 75% af fjárhæðinni og þannig sé hægt að fá 28-35% af fjárfestingunni til baka í formi skattaafsláttar.
Fréttablaðið, 9. júní 2021.