Sölubann á upprunábyrgðum ekki vandamál raforkukaupenda
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í kvöldfréttum RÚV þar sem kemur fram að honum sé ekki kunnugt um að verið sé að misnota kerfi upprunaábyrgða rafoku á Íslandi. Stórnotendur raforku hafa engar fyrirspurnir fengið vegna þeirra en í fréttinni kemur fram að sala á upprunaábyrgðum hafi verið bönnuð frá Íslandi.
Ekki kunnugt um að kaupendur raforkunnar séu að misnota kerfið
Í frétt RÚV kemur fram að kaupendur upprunavottorða raforku geti sagst nota endurnýjanlega orku í framleiðslu sinni hvort sem hún sé það í raun eða ekki. Ástæða þess að búið sé að banna söluna er sú að innlend vottorð standi ekki undir fullyrðingum stórnotenda um að þeir noti endurnýjanlega orku, þeir hafi með öðrum orðum ekki keypt nein upprunavottorð eins og segir í fréttinni.
Sigurður: „Okkur er ekki kunnugt um það að kaupendur raforkunnar séu að misnota þetta kerfi og okkur hefur ekki borist það til eyrna að þessir stórnotendur raforku hafi fengið einhverjar fyrirspurnir varðandi upprunaábyrgðirnar.“ Í fréttinni kemur fram að Sigurður hafni því með öllu að verið sé að hafa fé af orkufyrirtækjum þótt stórnotendur kaupi ekki upprunavottorð.
Samtök iðnaðarins hafa alltaf talað gegn framkvæmdinni við sölu á vottorðunum
Sigurður segir að Samtök iðnaðarins hafi alltaf talað gegn framkvæmdinni við sölu á vottorðunum: „Við höfum bent á ímynd Íslands í þessu samhengi sem land grænnar orku en svo hvernig á að útfæra það nákvæmlega, það er erfitt að sjá út frá skuldbindingum og öðru og við bara bíðum átekta í því eins og aðrir að sjá hvernig stjórnvöld ætla sér að höggva á þennan hnút sem upp er kominn en getum ekki beint séð að það sé vandamál raforkukaupenda eins og staðan er í dag.“
RÚV, 12. maí 2023.
Hér er hægt að nálgast fréttir RÚV og Stöðvar 2 um upprunaábyrgðir raforku frá árinu 2020.