Fréttasafn



6. jún. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál

Stefna SI 2019-2021 samþykkt

Stjórn Samtaka iðnaðarins samþykkti stefnu samtakanna fyrir 2019-2021 á fundi sínum á Siglufirði í gær. Stefnumótunin hófst í Húsafelli í september 2018 þar sem stjórn SI, félagsmenn og starfsmenn komu saman ásamt Kristni Hjálmarssyni ráðgjafa. Unnið hefur verið að stefnunni í vetur en sem fyrr segir var hún afgreidd á stjórnarfundi á Siglufirði í gær.

Stefnan miðar að því að efla íslenskan iðnað og auka samkeppnishæfni hans. Stefnumálin snúa að sex þáttum sem eru menntun, innviðir, nýsköpun, starfsumhverfi, umhverfis- og orkumál og ímynd. Með umbótum á þessum sviðum má auka samkeppnishæfni Íslands sem eykur verðmætasköpun og þar af leiðandi lífsgæði landsmanna. Þannig verður Ísland í fremstu röð.

Samþykkt stefnunnar er stór áfangi

Samtök iðnaðarins hafa gefið út þrjár skýrslur sem fjalla um þessi málefni. Innviðir á Íslandi – ástand og framtíðarhorfur kom út í október 2017 en það var fyrsta heildstæða úttektin á stöðu innviða á Íslandi. Á Iðnþingi 2018 kom skýrslan Ísland í fremstu röð – eflumsamkeppnishæfnina út en þar var sjónum beint að stöðu Íslands og þeim áskorunum sem við er að glíma varðandi samkeppnishæfni landsins. Haustið 2018 var horft til framtíðar í skýrslunni Mótum framtíðina saman – atvinnustefna fyrir Ísland. Mörkuð var framtíðarsýn fyrir Ísland árið 2050 og gerðar um 70 tillögur sem ráðast má í á næstu árum til að efla samkeppnishæfni Íslands og auka verðmætasköpun. Samhliða þessari vinnu var unnin stefna í menntamálum og nýsköpun sem kynnt var síðastliðinn vetur. Starfsmenn SI hafa annast þessa vinnu í viðamiklu samstarfi við félagsmenn og aðra sérfræðinga. Sú stefna sem samþykkt var í gær mótast af þessu umfangsmikla starfi sem unnið hefur verið innan samtakanna undanfarin tvö ár.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins: „Það er stór áfangi að samþykkja stefnu samtakanna eftir umfangsmikið starf sem fjölmargir hafa komið að. Stefnan markar áherslur í starfi SI næstu árin og verður vonandi til þess að efla íslenskan iðnað. Með markvissum aðgerðum má ná árangri sem skilar auknum verðmætum og bættum lífsgæðum sem við öll njótum góðs af. Ég þakka stjórn og starfsfólki SI fyrir vel unnin störf sem og þeim fjölmörgum öðrum sem hönd hafa lagt á plóg.“

Hér er hægt að nálgast stefnu SI 2019-2021.

Stjorn-a-Siglufirdi-juni-2019-2-Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, Agnes Ósk Guðjónsdóttir, Ágúst Þór Pétursson, Guðrún Halla Finnsdóttir, Birgir Örn Birgisson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Daníel Óli Óðinsson, Egill Jónsson, Sigurður R. Ragnarsson, Valgerður Hrund Skúladóttir, Magnús Hilmar Helgason og Björg Ásta Þórðardóttir.