Fréttasafn



28. mar. 2022 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki

Stjórn Félags vinnuvélaeigenda endurkjörin

Stjórn Félags vinnuvélaeigenda var endurkjörinn á aðalfundi félagsins sem fram fór 24. mars á Vox Home. Í stjórn Félags vinnuvélaeigenda eru Óskar Sigvaldason, formaður, Vilhjálmur Þór Matthíasson, varaformaður, Gísli Elí Guðnason, Gunnbjörn Jóhannsson, Hreinn Sigurjónsson, Ívan Örn Hilmarsson, Óskar Guðjónsson og Pétur Kristjánsson.

Góð mæting var á fundinn og áður en formleg fundarhöld hófust flutti Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, fræðsluerindi um helstu leikreglur sem gilda vegna útboða og innkaupa á vegum hins opinbera auk þess sem farið var yfir helstu álitamál sem berast inn á borð Samtaka iðnaðarins þegar upp kemur ágreiningur um framkvæmd slíkra mála. Fundarmenn lýstu yfir mikilli ánægju með fræðsluna að henni lokinni.

Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, tók við fundarstjórn að fræðsluerindi loknu. Þá fór Óskar Sigvaldason, formaður Félags vinnuvélaeigenda, yfir skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs þar sem farið var yfir helstu áherslumál og verkefni félagsins. 

Á fundinum kom fram að stjórn félagsins muni leggja mikla áherslu á að styðja vel við upphaf nýs náms Tækniskólans í jarðvirkjun. Til stendur að fara í markaðsátak með Tækniskólanum þar sem námið er auglýst og vonast er til þess að það verði eftirsóknavert nám á komandi haustönn.

Að aðalfundi loknum buðu Samtök iðnaðarins öllum fundarmönnum til opnunar stórsýningarinnar Verks og vits í Laugardalshöll.

Adalfundur-2022_2Óskar Sigvaldason, formaður stjórnar Félags vinnuvélaeigenda, fór yfir skýrslu stjórnar.

Adalfundur-2022_3Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.