Fréttasafn16. jún. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Samtök gagnavera

Stjórnvöld brugðist í uppbyggingu í orkukerfinu

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Björn Brynjúlfsson, formann Samtaka gagnavera og forstjóra Borealis Data Center, í Morgunútvarpi Rásar 2 um gagnaversiðnaðinn og orkumál. Þar segir Sigríður meðal annars að stjórnvöld hafi brugðist síðustu ár varðandi uppbyggingu í orkukerfinu, kerfið sé fulllestað og nánast sé komið inn í tímabil orkuskorts á Íslandi og það sé alvarleg staða.

Gagnaverin sækja sér fjölbreytta flóru viðskiptavina

Björn segir meðal annars að vegferðin sem öll gagnaverin séu í á Íslandi sé að sækja sér fjölbreytta flóru af viðskiptavinum. „Það eru öll gagnaverin að byggja upp til langs tíma. Þetta eru innviðir og stafrænir innviðir. Ég get tekið dæmi frá Borealis sérstaklega, okkar fjárfestir er að fjárfesta fyrir tveimur árum í Boreals og er að horfa til áratuga. Þeirra fókus er á sjálfbærar lausnir og vilja sjá okkur vera að veita sjálfbærar lausnir í rauninni til heimsins.“ 

Orkumálin ekki á góðum stað

Sigríður segir að orkukerfið sé fulllestað. „Við erum að glíma við og erum nánast komin inn í tímabil orkuskorts á Íslandi. Það er auðvitað alvarleg staða  vegna þess að orka er ákveðin forsenda verðmætasköpunar í öllu hagkerfinu og við keyrum okkur áfram í orku, hvort sem það er í sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða iðnaði. Olía er líka orka. Þarna hafa stjórnvöld að vissu leyti brugðist. Á síðastliðnum áratug hefur ekki verið nein raunveruleg uppbygging í orkukerfinu.“ Hún segir að rammaáætlun hafi setið föst í þinginu í 9 ár eða eitthvað slíkt. „Sem betur fer var leyst úr því en núna erum við að sjá með Hvammsvirkjun þar eru strax komin upp vandamál með fyrstu nýju virkjunina sem á að koma inn í kerfið. Þannig að orkumálin eru ekki á góðum stað.“

Ekki verið að afhenda orkuna fyrir ekki neitt

Sigríður segist skilja sjónarmið sem hafi komið fram að hluti af orkukerfinu sé að fara í námugröft og það sé ekki forsvaranlegt en hins vegar sé verið að tala um að gagnaverin séu að fá þetta og hitt. „Gagnaverin eru auðvitað að borga mjög gott verð fyrir orkuna. Það er í þágu alls almennings. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar í gegnum ríkið. Við erum öll að njóta góðs af mikilli velgengni hjá Landsvirkjun. Methagnaði og svo framvegis sem kemur inn í sameiginlega sjóði landsmanna. Þannig að það er nú ekki þannig að það sé verið að afhenta orkuna fyrir ekki neitt.“

Hingað til hefur ekkert verið virkjað fyrir gagnaversiðnaðinn

Sigríður segir að gagnaversiðnaðurinn sé útflutningsgrein. „Gagnaversiðnaðurinn er að skapa útflutningsverðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú. Hingað til hefur ekkert verið virkjað fyrir gagnaversiðnaðinn þó ég teldi það alveg skynsamlegt að gera það til framtíðar vegna þess að þetta er grein sem er í miklum vexti. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er þetta framtíðariðnaður um allan heim. Ef Ísland ætlar að vera þátttakandi í þeim stafrænu breytingum sem eru framundan og eru á miklum hraða um þessar mundir og þá þurfum við að taka sneið af þessari köku. Þetta snýst um stafræna samkeppnishæfni landsins, samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.“ Hún segir að enginn félagsmanna Samtaka gagnavera séu með framtíðarplan um að viðhalda þessari starfsemi, námugröft, til langs tíma. „Það er búið að fjárfesta fyrir tugi milljarði í íslenskum gagnaversiðnaði og öll gagnaverin eru að stefna í aðrar áttir.“ 

Á vef RÚV er hægt að nálgast viðtalið við Sigríði og Björn.

RÚV, 16. júní 2023.