Fréttasafn



22. maí 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Stjórnvöld flýti úthlutunum til að auka húsnæðisöryggi

Nú er rétti tíminn til að byggja þar sem byggingariðnaðurinn er meðal þeirra greina sem vænst er mikils samdráttar í ár og ljóst að mikið verður um lausa framleiðslugetu í greininni. Hana ætti að nýta til aukinnar uppbyggingar þar sem þörfin er hvað mest á svokölluðum almennum íbúðum sem fjármagnaðar eru á grundvelli laga með það að markmiði að auka húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að bæta aðgengi að íbúðarhúsnæði til leigu. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í grein sinni í Morgunblaðinu. Hún segir að það blasi við að nú sé rétti tíminn fyrir stjórnvöld að flýta úthlutunum þeirra stofnframlaga sem þegar voru á fjármálaáætlun fyrir árin 2021 og 2022 svo að hægt verði að tryggja aukið húsnæðisöryggi til framtíðar. 

Mikil eftirspurn eftir stofnframlögum til byggingar almennra íbúða

Í greininni segir Jóhanna Klara að samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé mikil eftirspurn eftir stofnframlögum til byggingar almennra íbúða. Heildarfjármagn til úthlutunar á árinu 2020 sé um 3,7 ma.kr. en sótt hafi verið um stofnframlög fyrir 5,6 ma.kr. Þar með þurfi að hafna umsóknum sem nemi um 2 ma.kr. Hún segir að ef horft sé til fjölda umsókna sé ljóst að mikill vilji sé fyrir því að koma að frekari uppbyggingu almennra íbúða en sótt hafi verið um stofnframlög til byggingar á 521 íbúð og til kaupa á 248 íbúðum. Mestur hafi áhuginn verið meðal umsækjenda við uppbyggingu fyrir tekjulága á vinnumarkaði eða 279 íbúðir, 166 íbúðir fyrir námsmenn og 144 íbúðir á vegum sveitarfélaga. Bendi þetta til að nú þegar séu tilbúin verkefni víða um land þar sem hefja má framkvæmdir um leið og fjármagn sé tryggt. Mikilvægt sé að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þar sem þörfin er mest og í ljósi stöðunnar ætti að ráðast strax í endurmat á þörfinni á almennum íbúðum sem kunni að aukast talsvert í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Hér er hægt að lesa grein Jóhönnu Klöru í heild sinni.