Fréttasafn



19. des. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stjórnvöld hafa að minnsta kosti fjórar leiðir til að lækka vexti

Ríkið getur beitt sér að minnsta kosti á fernan máta til að auka hagkvæmni og skilvirkni á fjármálamarkaði, fyrir utan að selja eignarhluti sína og tryggja samkeppni á markaði, þannig að lægri álagning skili sér til heimila og fyrirtækja. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Markaðnum í dag með yfirskriftinni Svona getur ríkið lækkað vexti. 

Í fyrsta lagi segir hann að stjórnvöld geti lækkað sértæka skatta á fjármálastarfsemi sem er hærri hér á landi en annars staðar og þó stjórnvöld hafi áform um að lækka bankaskattinn sé hann engu að síður hár í alþjóðlegum samanburði. Í öðru lagi megi hagræða í rekstri með sérhæfingu og útvistun verkefna en bankarnir þrír bjóði allir upp á alhliða þjónustu. Í þriðja lagi geti ríkið sem eigandi krafist aukins aðhalds í rekstri bankanna en íslensku bankarnir hafi verið munaðarlausir meira og minna frá stofnun þeirra 2008. Í fjórða lagi geti ríkið beitt sér sem eigandi banka og í gegnum regluverk fyrir aukinni hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði með samstarfi um sameiginlega innviði þar sem stærðarhagkvæmni er mikil til að draga úr kostnaði og kerfisáhættu, auka þægindi og lækka aðgangshindranir.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að íslensku bankarnir séu að mestu leyti í eigu ríkisins sem auk þess setji leikreglurnar á markaðnum. Stjórnvöld hafi það nú í hendi sér að láta verkin tala og vinna að nauðsynlegum umbótum á íslenskum fjármálamarkaði því til mikils sé að vinna fyrir íslenskt samfélag.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.