Fréttasafn



30. jún. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Stóriðjan komin að sársaukamörkum

Nýleg greining Raforkueftirlitsins um þróun raforkuverðs á Íslandi sýnir svo ekki verður um villst að við höfum sofnað á verðinum þegar kemur að því að viðhalda samkeppnisforskoti Íslands með tilliti til raforkumála. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar eiga hrós skilið fyrir að setja af stað vinnu við greiningu á stöðunni og niðurstöðurnar ættu að vísa stjórnvöldum áfram veginn. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverksviðs SI, í grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Sterk staða Íslands er ekki sjálfgefin.

Hún segir að öruggur aðgangur að raforku á samkeppnishæfu verði sé lykilþáttur í sterku og öflugu atvinnulífi sem myndi grundvöll að sterku samfélagi. Helsta skýring mikilla verðhækkana á raforku á umliðnum árum sé sú að raforkuframleiðsla hafi hvorki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins né verið aukin til að skapa svigrúm fyrir ný tækifæri og fjárfestingar. Sigríður segir að Samtök iðnaðarins hafi ítrekað varað við þeirri stöðu sem hafi nú teiknast upp og hvatt til aukinnar raforkuframleiðslu, í þágu verðmætasköpunar og þar með samfélagsins alls.

Þá kemur fram í grein Sigríðar að bæði raforkuverð og flutningskostnaður raforku hafi hækkað mikið og stefni í enn frekari hækkanir á flutningskostnaði á næstu árum, sem nú þegar sé mjög hár í alþjóðlegum samanburði. Hún segir að stóriðjan sé nú komin að ákveðnum sársaukamörkum hvað þetta varði. Sterk staða Íslands sé alls ekki sjálfgefin og greiningar staðfesti að það séu blikur á lofti. Hækkandi raforkuverð, íþyngjandi flutningskostnaður og flókið regluverk muni setja framtíð orkusækins iðnaðar á Íslandi í óvissu. Útflutningsverðmæti, skatttekjur, fjöldi verðmætra starfa og önnur afleidd jákvæð áhrif séu í húfi. Þá segir Sigríður að auki séu ytri aðstæður ekki ákjósanlegar um þessar mundir. Brothætt staða í alþjóðamálum, stríð og vendingar í tollamálum skapi óvissu sem dragi niður væntingar og hafi þannig neikvæð áhrif á fjárfestingar og uppbyggingu.

Í niðurlagi greinar sinnar hvetur Sigríður til þess að það verði ekki látið gerast að við missum sterka stöðu Íslands í raforkumálum úr höndunum og fjárfestar og fyrirtæki ákveði að byggja upp annars staðar en á Íslandi. Hún segir að það yrði mikið tap fyrir hagkerfið og samfélagið allt.

Hér er hægt að lesa grein Sigríðar.

Morgunblaðið, 28. júní 2025.

Morgunbladid-28-06-2025