Stórt og mikilvægt hlutverk að sinna eftirliti við framkvæmd
Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, segir í viðtali í Bítinu á Bylgjunni og á Vísi að hlutverk eftirlitsaðila við framkvæmdir sé jafn stórt og þess sem hannar framkvæmdina og að það sé algengara nú en áður að mál fari fyrir dómstóla þegar eitthvað kemur upp við framkvæmd. Reynir segir dæmigert að eftirliti sé sinnt af öðrum en þeim sem sá um hönnun og það sé sérstakt hlutverk sem sé óháð henni. Sá sem sjái um eftirlitið eigi að sjá til þess að hún sé samkvæmt hönnun og lögum og reglum. „Það er mjög stórt og mikilvægt hlutverk í heildarkeðjunni að sinna eftirliti,“ segir Reynir og að umfang þess sé svipað og hönnunin sjálf. Í eftirlitinu felst það að fylgjast með framkvæmdinni sjálfri, efnunum sem er verið að nota og allt niður í það að telja steypujárnin áður en það er steypt.
Þá kemur fram í frétt Vísis að Reynir segi að erlendis séu stundum eftirlitsaðilarnir frá sama fyrirtæki og hönnuðu. Það séu kostir og gallar við bæði. Það sé auðveldara að gagnrýna ef það er ekki sami aðili. Hann segir að innan Félags ráðgjafaverkfræðinga sé mikið rætt um ábyrgð og að félagið hafi opnað samtal við stærstu verkkaupa, sem eru ríki og sveitarfélög. Hann segir að þetta sé risamál og þróunin sé að það sé meiri harka í þessum verkefnum. Áður fyrr hafi ekki reynt jafn mikið á ábyrgð. Menn hafi gert sitt besta og þeim verið treyst. En stundum hafi verið gerð mistök en það hafi verið þannig. Í dag fari mál frekar fyrir dómstóla og það reyni á ábyrgðir.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Reyni í heild sinni í Bítinu á Bylgjunni.
Vísir, 8. ágúst 2024.