Fréttasafn



26. apr. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk

Tækifæri í nýju eignarhaldi á Farice

„Við fögnum þessu nýja eignarhaldi og sjáum í því tækifæri til að efla markað með gagnatengingar. Fyrirkomulag þessara mála hefur um margt verið óvenjulegt hér á landi og ekki gallalaust þrátt fyrir að strengirnir hafi þjónað okkur vel undanfarin ár,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í umfjöllun Kristjáns Torfa Einarssonar, blaðamanns, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins um Farice sem er nú alfarið komið í eigu ríkisins. Farice á og rekur gagnastrengina FARICE-1 og DANICE sem eru aðalfjarskiptatengingar Íslands við umheiminn. 

Ísland að tapa samkeppnisforskoti í gagnaversiðnaði

Sigríður segir aðalmálið vera að Ísland sé að tapa samkeppnisforskoti í gagnversiðnaði sökum ósamkeppnishæfra gagnatenginga. „Þetta var m.a. niðurstaða skýrslu sem KPMG gerði um iðnaðinn og starfshóps sem fjallaði um gagnaver á vegum stjórnvalda á síðasta ári. Staða tenginga er ein af helstu hindrunum fyrir uppbyggingu öflugs gagnaversiðnaðar samkvæmt báðum þessum úttektum. Verð á bandvídd er hátt í samanburði við meginland Evrópu. Farice selur fjarskiptafélögum innanlands tengingar í heildsölu en hefur einnig verið í smásölu til viðskiptavina gagnavera. Þetta þýðir að tvöföld verðskrá er hér í gangi og verðmyndunin því ógagnsæ sem er óheppilegt þegar um félag í einokunarstöðu er að ræða. Til viðbótar við hátt verð og einokun einkennir ófullnægjandi öryggi stöðu gagnatenginga við útlönd. Gagnastrengir eru dýrir og lagning þeirra og viðhald er áhættusöm fjárfesting sem þýðir jafnframt að áhætta ríkisins vegna þeirra getur verið talsverð. Þessa áhættu höfum við séð raungerast hér á landi m.a. í þeim mikla umframkostnaði sem fallið hefur á ríkið vegna Farice síðastliðinn áratug,“ 

Stjórnvöld grípi tækifærið og ráðist í breytingar á hlutverki Farice

Sigríður segir jafnframt í Viðskiptablaðinu að með tiltölulega einföldum breytingum á bæði rekstri og hlutverki Farice sé hægt að stoppa upp í helstu gallana sem standa samkeppnishæfni okkar fyrir þrifum. „Með einfaldri breytingu á hlutverki félagsins, eins og að Farice fari úr því að selja gagnatengingar yfir í að selja eða leigja nýtingarrétt á strengjum, má slá margar flugur í einu höggi. Með því að fela markaðinum og fjarskiptafyrirtækjum sölu á tengingum hverfur bæði ógagnsæið og hin tvöfalda verðskrá sem nú er við lýði. Auk þess sem samkeppni stuðlar að lægra verði og betri þjónustu fyrir almennan notenda þá hafa fjarskiptafélög meiri hvata til að stækka markaðinn og vaxa. Með því að breyta umgjörð og hlutverki Farice getur ríkið jafnframt lækkað fjármögnunarkostnað og minnkað áhættu í frekari fjárfestingum. Ríkið gæti t.d selt aðgang að nýjum streng áður en framkvæmdir við hann hefjast, en þegar tekjur af nýjum streng eru fyrirfram tryggðar má draga verulega úr fjárhagslegri áhættu við framkvæmdina. Nýr strengur myndi margfalda öryggi gagnatenginga við umheiminn og styrkja stöðu okkar verulega í alþjóðlegri samkeppni um gagnaver. Nýtt og skýrt eignarhald á Farice felur í sér tækifæri til þess að ráðast í slíkar breytingar sem eru tiltölulega einfaldar og auðveldar í framkvæmd en gætu skilað miklum ávinningi. Við bindum vonir við að stjórnvöld grípi þetta tækifæri því núna er lag.“

Viðskiptablaðið, 25. apríl 2019. vb.is, 28. apríl 2019.