Fréttasafn



25. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Talning SI besta heimildin um byggingarstarfsemi

Landsbankinn vekur athygli á því í greiningu sinni um fasteignamarkaðinn í nýrri útgáfu Hagsjá að eitt af skrýtnu vandamálum nútímans sé hversu lítið við vitum um hvað er verið að byggja af íbúðarhúsnæði, hvers konar húsnæði og hvar og að enn í dag séu niðurstöður talninga SI bestu heimildirnar um byggingarstarfsemi. 

Í greiningunni kemur meðal annars fram að samkvæmt tölum SI hafi rúmlega 4.000 íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og um helmingur þeirra orðnar fokheldar og lengra komnar og um helmingur ekki náð fokheldu. Íbúðir í byggingu hafi flestar verið í Reykjavík og Kópavogi, eðli málsins samkvæmt fyrir stærstu sveitarfélögin á svæðinu. Þá segir að það veki athygli að í Mosfellsbæ séu álíka margar íbúðir í byggingu og í Garðabæ sem sé mun stærri bær og verulega fleiri en í Hafnarfirði sem sé miklu stærri bær.

Byggingarstarfsemi haldi áfram af sama krafti

Í Hagsjánni segir jafnframt að skoðun SI sé sú að það þurfi 45 þúsund fullbyggðar íbúðir á markað á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2040, eða rúmlega 2.000 á ári að jafnaði. Til þess að það gangi upp þurfi byggingarstarfsemin a.m.k. að halda áfram af sama krafti og nú allan þann tíma. Eins og staðan sé núna virðist byggingargeirinn vera þaninn til hins ýtrasta og aukin afkastageta byggi að talsverðu leyti á innfluttu vinnuafli. Miðað við sýn Samtaka iðnaðarins megi ætla að sú staða verði viðvarandi ef ætlunin er að uppfylla þarfir allra.

Á vef Landsbankans er hægt að lesa nánar um greiningu bankans í Hagsjá.

Hér er hægt að lesa nánar um talningu SI.