Fréttasafn6. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Þarf 9.000 sérfræðinga fyrir meiri vöxt í hugverkaiðnaði

„Mikil vaxtartækifæri eru enn fyrir hendi í hugverkaiðnaði en áframhaldandi vöxtur er óhugsandi nema ríkt framboð sé af sérhæfðri þekkingu, reynslu og mannauði,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu í dag en í nýrri greiningu SI kemur fram að ef vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði á Íslandi eiga að ganga eftir þarf að fjölga sérfræðingum um allt að níu þúsund næstu fimm árin. Það séu 1.800 manns að meðaltali á ári.

Í Fréttablaðinu segir að 80% fyrirtækja sem þátt tóku í könnun SI vanti starfsfólk í dag til þess að viðhalda starfsemi sinni. Forvígismenn flestra þeirra telji sig vanta á bilinu eitt til fimm stöðugildi til þess að viðhalda núverandi starfsemi, en dæmi eru um að fyrirtæki vanti allt að 80 nýja starfsmenn.

Sérfræðingar sóttir til annarra landa

Þá kemur fram að af svörum fyrirtækjanna megi dæma að þau geri ráð fyrir að um helming starfsmanna þurfi að sækja til annarra landa. Um mjög sérhæfð störf sé að ræða í mörgum tilvikum, en sem dæmi megi nefna sérfræðinga í örgjörvaforritun, sérfræðinga í skýjalausnum með áherslu á persónuvernd, framleiðendur sem geta unnið innan tæknilistapípu, kvikara og sérfræðinga í þörungaræktun.

Markviss stefnumörkun og aðgerðir stjórnvalda

Í fréttinni kemur fram að Sigríður þakkar þetta markvissri stefnumörkun og aðgerðum stjórnvalda á undanförnum árum, en ásamt drifkrafti og áræðni frumkvöðla hafi hugverkaiðnaður fest sig í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun og útflutningi Íslands.

Kallar á áherslubreytingar í skólakerfinu og laða þarf að erlenda sérfræðinga

Þá segir í fréttinni að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 192 milljörðum króna á síðasta ári eða 16% af útflutningstekjum íslenska þjóðarbúsins. Tekjurnar hafi nær tvöfaldast á innan við einum áratug. „Þessi staða þýðir að við þurfum að gefa verulega í og auka framboð af fólki með tækni-, vísinda- og raungreinamenntun. Það kallar á áherslubreytingu í skólakerfinu okkar, en ekki síður og til skemmri tíma þurfum við að laða til okkar erlenda sérfræðinga með öllum ráðum, enda erum við þar í harðri samkeppni við aðrar þjóðir.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 6. maí 2022.

Frettabladid-06-05-2022