Fréttasafn



14. sep. 2020 Almennar fréttir

Þátturinn Nýjasta tækni og vísindi loksins endurvakinn

Þátturinn Nýjasta tækni og vísindi hefur verið endurvakinn á dagskrá RÚV eftir langa fjarveru. Fyrir þremur árum hvatti Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, til þess að þátturinn yrði tekinn upp að nýju í dagskrá sjónvarpsins líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu. Sigurður sagði þá að miðlun vísinda og tækni til almennings væri þörf. Á þeim tíma sagði hann: „Ég vil leyfa mér að stinga upp á því að þátturinn Nýjasta tækni og vísindi verði endurvakinn. Það mun hafa mun meiri áhrif en blaðagreinar og auglýsingar um mikilvægi vísindastarfs. Það er nauðsynlegt að vel takist til því menntun, rannsóknir, nýsköpun og framtakssemi eru drifafl framtíðarvaxtar á Íslandi.“

Fyrsti þátturinn af Nýjasta tækni og vísindi verður á RÚV í kvöld en fyrsti þátturinn fór í loftið 1967. Þættirnir voru á dagskrá fram til ársins 2004. Í fyrsta þættinum afhendir fyrri umsjónarmaður, Sigurður H. Richter, nýrri kynslóð þáttastjórnenda kyndilinn sem eru Edda Elísabet Magnúsdóttir, Sigmar Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason.