Þjónustu- og handverkshópar SI ræða skort á eftirliti og menntamál
Stjórnir þjónustu- og handverkshópa innan Samtaka iðnaðarins funduðu fyrir skömmu í Húsi atvinnulífsins þar sem meðal annars var rætt um skort á eftirliti og menntamál. Starfsgreinahóparnir sem um ræðir eru Meistarafélag hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík, Félag hásnyrtimeistara á Norðurlandi, Félag íslenskra snyrtifræðinga, Félag íslenskra gullsmiða, Ljósmyndarafélag Íslands og Kjóla- og klæðameistarafélagið,
Í upphafi fundarins voru hárgreiðslumeistarar- og sveinar í Reykjavík boðin velkomin en stutt er síðan félagið gekk til liðs við SI. Farið var yfir stefnumál hópanna og málefni líðandi stundar rætt. Hóparnir eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á starfsumhverfi greinanna, þ.e. lögverndun og eftirlit, ímyndarmál greinanna sem og menntamál.
Frummælendur á fundinum voru Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, sem ræddi um skort á eftirliti í iðngreinum og Hulda Birna Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, sem fór yfir stöðuna í menntamálum, nýafstaðna vinnustofu því tengdu og framtíðina.