Fréttasafn



12. sep. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Þörf fyrir bæði bækur og tæknilausnir í menntakerfinu

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI og viðskiptastjóri Samtaka menntatæknifyrirtækja, flutti erindi á norrænni ráðstefnu útgefenda fræðsluefnis sem haldin var í Reykjavík dagana 4.–6. september. Erindið bar yfirskriftina „The Danger of Binarism“ þar sem hún fjallaði um samband hefðbundinna kennsluaðferða og nútímavæðingu námsefnis í samhengi við útgáfu fræðsluefnis.

Í erindi sínu fór Hulda Birna meðal annars yfir hvernig heimurinn væri að breytast hratt og því oft settur fram í einfaldri tvíhyggju – hefðbundið á móti tækninýjungum í menntakerfinu. Hún benti á að þessi tvískipting væri ógn við þá flóknu veröld sem við lifum í. „Heimurinn er sjaldnast svartur eða hvítur,“ sagði Hulda Birna og bætti við að lífið væri mun margbrotnara en það. Hún minnti á að í raun og veru væri oftast meira en ein leið sem væri góð.

Hulda Birna beindi einnig sjónum sínum að útgáfu námsefnis og benti á að tvískiptingin þar væri oft milli bóka og tækni. Hún lýsti því að útgefendum fræðsluefnis væru oft stillt upp sem andstæðingum tæknilausna, en það væri ekki raunveruleikinn. Hún sagði að í nútímanum væri bæði þörf fyrir bækur og tæknilausnir og benti á að fyrirtæki sem framleiða tæknilausnir séu einnig að gefa út bækur, og hefðbundnir útgefendur vinni í síauknum mæli með rafrænar lausnir. 

Hulda Birna hvatti til meiri sveigjanleika og stuðnings við bæði hefðbundnar og tæknilegar lausnir innan menntakerfisins. Hún nefndi að þegar væri einokunarumhverfi í útgáfu fræðsluefnis leiddi það oft til takmarkaðra valmöguleika fyrir skólana. Þá gagnrýndi hún fjárhagslegar takmarkanir í skólakerfinu sem oft verði til þess að skólar þurfi að velja á milli þessa tveggja, frekar en að fá tækifæri til að nýta bæði.

Í lok erindisins lagði Hulda Birna áherslu á að skólakerfið ætti ekki að þurfa að velja á milli bóka og tækni. „Nútímaheimurinn krefst beggja,“ sagði hún. „Einn af hornsteinum menntunar er að bjóða upp á vandað kennsluefni, hvort sem það er í bókaformi eða í tæknilausnum.“