Fréttasafn



11. sep. 2025 Almennar fréttir Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Þrjú íslensk fyrirtæki á meðal efnilegustu EdTech-sprota

Þrjú íslensk menntatæknifyrirtæki eru á meðal fimmtíu efnilegustu EdTech-sprota á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum samkvæmt nýjum lista HolonIQ: The Nordic Baltic EdTech 50. Það eru fyrirtækin Atlas Primer, Evolytes og Moombix en þess má geta að Atlas Primer og Evolytes eru meðal aðildarfyrirtækja Samtaka menntatæknifyrirtækja, IEI. Listinn veitir innsýn í þau ungu og ört vaxandi fyrirtæki sem talin eru líklegust til að móta framtíð náms, kennslu og hæfniþróunar á svæðinu. Valið byggist á gögnum frá HolonIQ, mati sérfræðinga og skýrt skilgreindum hæfisskilyrðum. Einungis fyrirtæki sem eru yngri en 10 ára og hafa hvorki verið skráð á markað né gengið í gegnum yfirtöku koma til greina.

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, segir að framgangur íslenskra EdTech-fyrirtækja á lista HolonIQ staðfesti að Ísland hafi mikið fram að færa í þessari ört vaxandi og alþjóðlegu grein. Menntatækni sameini nýsköpun, þekkingu og tækni – þrjú lykilatriði í verðmætasköpun framtíðarinnar. Hún segir að Samtök iðnaðarins fagni þessum árangri og minnir á mikilvægi þess að skapa hagfelld skilyrði fyrir vöxt og upptöku menntatæknilausna innanlands. Það sé forsenda fyrir áframhaldandi alþjóðlegri velgengni og að íslenskir kennarar og nemendur njóti ávinningsins af íslenskri nýsköpun í menntamálum.

Nýsköpun í þágu náms – íslenskar lausnir vekja athygli

Atlas Primer hefur þróað einstaka lausn þar sem gervigreind er nýtt til að umbreyta hefðbundnu námi í hljóðform. Notendur geta hlustað á námsefni – jafnvel sitt eigið – í gegnum smáforrit sem aðlagar efnistök að þekkingarþörf hvers og eins. Lausnin sameinar persónubundið nám, skynræna fjölbreytni og tækni á áhrifaríkan hátt og hentar bæði nemendum, kennurum og fagfólki í símenntun.

Evolytes þróar skemmtilegar og gagnvirkar stafrænar menntalausnir með rætur í leikjafræði og bækur. Fyrirtækið hefur skapað sér sérstöðu með námsleikjum sem hjálpa nemendum að tileinka sér flókin hugtök, læra formúlur í stærðfræði í gegnum leik, í náttúruvísindum og stærðfræði á skapandi og aðgengilegan hátt. Evolytes hefur verið leiðandi í notkun leikja og sögugerðar sem námsleiðar.

Aðgengi í gegnum þjóðarverkefni – ekki opinbera innleiðingu

Hulda Birna segir að að tvær af þessum lausnum Evolytes og GraphoGame (finnsk lestrartæknilausn einnig á listanum) séu nú þegar aðgengilegar íslenskum grunnskólum í gegnum þjóðarverkefni, sem hafi verið fjármagnað til eins árs, sem byggi á framtaki og stuðningi einkaaðila og sjóða, en hafi ekki verið formlega tekin upp af hinu opinbera menntakerfi. Þessi verkefni hafi gert þúsundum íslenskra nemenda kleift að nýta alþjóðlega viðurkenndar lausnir í sínu námi – án þess að skólakerfið sjálft hafi tekið beinan þátt í fjármögnun eða innleiðingu.

Heimamarkaður sem lykill að alþjóðlegum vexti

Þá segir Hulda Birna að árangur á alþjóðamarkaði byggi oft á traustri stöðu á heimamarkaði. Því sé það áhyggjuefni að íslenskar menntatæknilausnir fái síður tækifæri innan íslenska menntakerfisins, þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fjárfest í þróun þeirra með styrkjum til rannsókna og nýsköpunar. Hún segir að eiginlega séum við að efla menntakerfi annarra landa – en ekki þess íslenska og að því þurfi að breyta. Menntatækni geti létt undir með kennurum, bætt námsgögn og stuðlað að persónubundnu námsmati með rauntímalausnum. Til að sú framtíð verði að veruleika þurfi Ísland að ganga lengra í upptöku og innleiðingu nýrra lausna. Hulda Birna segir að með því að efla menntatæknilausnir innan íslensks menntakerfis sé jafnframt hægt að styðja við vöxt hugverkaiðnaðarins, bæta vinnuumhverfi kennara og bæta námsárangur. Oft séu margföldunaráhrifin gríðarleg þegar lausnir sem hafi fest rætur heima fyrir fari inn á erlenda markaði.