Þrjú íslensk menntatæknifyrirtæki í hópi efnilegustu sprotanna
Þrjú íslensk fyrirtæki eru meðal fimmtíu efnilegustu sprotafyrirtækja í menntatækni á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum samkvæmt nýjum lista sem Holon IQ tók saman fyrir árið 2024. Íslensku menntatæknifyrirtækin sem um ræðir eru Atlas Primer, Evolytes og LearnCove.
Við útgáfu á listanum var horft til fyrirtækja í þessum átta löndum: Finnland, Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Ísland, Eistland, Lettland og Litháen.
Á myndinni hér fyrir ofan eru Mathieu Grettir Skúlason, framkvæmdastjóri Evolytes, Aðalheiður Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri LearnCove, og Hinrik Jósafat Atlason, framkvæmdastjóri og stofnandi Atlas Primer.
AtlasPrimer er námsumhverfi sem byggir á samræðum við gervigreind í námsefni með hljóði. Með því verður til ný og einstaklingsmiðuð nálgun að námi. Fyrirtækið hefur undanfarið haslað sér völl í Bandaríkjunum með samstarfssamningum við aðila á borð við OpenAI og American Student Assistance. Hópurinn sem stendur að Atlas Primer hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga beggja vegna Atlantshafsins sem og umfjöllun í TIME og Forbes.
Evolytes er stærðfræðinámskerfi sem sameinar námsbók, námsleik og upplýsingakerfi til þess að gera stærðfræðinám skemmtilegra og árangursríkara. Námsupplifunin gerist í opnum ævintýraheimi þar sem nemendur safna dýrum og leysa verkefni með því að svara stærðfræðidæmum rétt. Algrímurinn á bakvið námskerfið aðlagar erfiðleikastig námsefnisins að getu hvers nemenda byggt á sex sálfræðikenningum, en aðferðafræðin var þróuð í gegnum þverfaglegar rannsóknir. Kennarar fá rauntímayfirsýn yfir námsframvindu nemenda sinna sem hjálpar þeim að veita snemmtæka íhlutun og einstaklingsmiðaða aðstoð. Evolytes er notað í fimm heimsálfum og er í hröðum vexti, en námskerfið var valið besta stærðfræði-námsefnið á yngsta stigi á alþjóðlegu menntatækniráðstefnunni BETT 2024.
Learn Cove er hugbúnaður sem hjálpar fyrirtækjum að halda utan um þjálfun, ferla og úttektir. LearnCove sérhæfir sig í stuðningi fyrir eftirlitsskyld fyrirtæki sem standa undir flóknum regluverkum, fjöltyngdum vinnustöðum og oft á tíðum dreifðum starfsstöðvum eins og í sjávarútvegi og iðnaði. 6 af 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Íslands eru að nota hugbúnaðinn. Meðal viðskiptavina eru Brim, Samherji, Royal Greenland, Norðurál og Skeljungur.