Fréttasafn



2. apr. 2020 Almennar fréttir

Þurfum nú sem aldrei fyrr að styðja við innlend fyrirtæki

„Það er mikið búið að tala um það í þeim hörmungum sem nú ganga yfir heimsbyggðina og okkur þar með að þá erum við öll saman í þessu og við þurfum öll að standa saman. Nú gefur virkilega á bátinn í íslensku atvinnulífi og nú þurfum við sem aldrei fyrr að standa saman og styðja við þau fyrirtæki sem við eigum hér á landi.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í viðtali hjá Jóni G. Haukssyni á Hringbraut þar sem þau ræddu meðal annars um það sem hún segir í grein sinni í Fréttablaðinu þar sem hún hvetur landsmenn til að kaupa íslenskt. 

Guðrún segir að við þurfum að styðja við þá þjónustu sem er í okkar nærumhverfi. „Ég var að hvetja fólk til þess að styðja við íslenska verslun, íslenska þjónustu og íslenska framleiðslu og það getum við gert með svo margvíslegum hætti. Við fáum útborgað í hverjum mánuði og við erum með einhverjar krónur aflögu og það hvernig við eyðum þessum krónum fylgir mikil ábyrgð og það fylgir mikil ábyrgð hvar ég læt þetta fé streyma. Þetta er svolítið eins og árfarvegur. Við getum gert það í okkar nánasta nærumhverfi. Ég til dæmis bý í Hveragerði og ég kýs að versla eins mikið og ég get af þeim þjónustuaðilum sem þar eru. Ég er mjög þakklát núna fyrir bakarinn okkar í Hveragerði. Það er hægt að panta hjá honum brauð og það er hengt á hurðarhúnana hjá okkur. Nú við getum farið í blómabúðirnar og keypt íslensk blóm. Það eru veitingastaðir allt í kringum okkur og kaffihús sem eru núna að leita nýrra leiða til að lifa af. Það er svo auðvelt að taka upp símann, hringja og spyrja ertu til í að koma með út í bíl til mín og ég skal greiða í gegnum símann.“ 

Fiðrildaáhrifin fljót að koma fram

Guðrún segir fiðrildaáhrifin fljót að koma fram nú þegar ferðaþjónustan sé að upplifa tekjur fara í núll. „Við erum öll svo bundin og tengd hvort öðru. Það hafa margir af mínum félagsmönnum byggt fyrir ferðaþjónustuna, hótel, afþreyingu og annað. Mörg hótel sem eru í byggingu eru bara stopp. Hótel sem voru komin á teikniborðið eru stopp og vitaskuld mun þetta hafa áhrif á mannvirkjamarkaðinn.“

Hún segir að ferðaþjónustan hafi verið mikill drifkraftur hér í samfélaginu síðustu ár og skapað miklar gjaldeyristekjur. „Það hefur mikið fé runnið í ríkiskassann. Ég hefði svo gjarnan viljað að á þeim tíma hefði ríkið verið forsjált og sett í hönnun verkefni, draumaverkefni, sem við vitum að einn góðan veðurdag við þurfum að fara í. Við vitum það líka að einn góðan veðurdag gefur á bátinn. Við erum alltaf að fara upp og niður og því miður erum við núna að fara nokkuð djúpt niður. En ef að ríkið hefði gert það þá ættum við núna tilbúin verkefni sem við gætum dælt með mjög skömmum fyrirvara út í samfélagið. Ég bind samt sem áður vonir við það að í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar séum við einmitt að fara að gera þetta. Ég get nefnt sem dæmi breikkun Suðurlandsvegar frá Kambabrún og austur á Selfoss. Það er í rauninni búið að hanna hann allan. Núna erum við að vinna hann í bútum, það væri bara hægt að klára hann. Ég held að ný brú yfir Ölfusá sé nánast tilbúin. Það væri hægt að klára tvöföldun á Reykjanesi.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á þáttinn. Viðtalið við Guðrúnu hefst á 20. mínútu.

Hringbraut-GH-2Jón G. Hauksson og Guðrún Hafsteinsdóttir.