Fréttasafn



13. nóv. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Til mikils að vinna að bíða ekki með lækkun stýrivaxta

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Kastljósi á RÚV að Seðlabankinn hafi svigrúm til að lækka vexti og það eigi ekki að bíða fram til febrúar á næsta ári heldur þurfi að gerast í næstu vaxtaákvörðun sem verður tilkynnt 19. nóvember. Hann segir helstu rökin vera röð áfalla sem hafi dunið á útflutningsatvinnuvegum síðustu mánuði og að áföllin hafi gert það að verkum að efnahagshorfur hafi versnað til muna líkt og kemur fram í nýrri greiningu SI. „Síðan sjáum við mjög glögglega í tölum að það er farið að hægja verulega á og komið reyndar samdráttur á öllum megingreinum iðnaðarins til að mynda sem að náttúrlega vegur þungt í okkar hagkerfi.“ Í viðtalinu kemur fram að Ingólfur telji kostnaðinn við það að lækka ekki stýrivextina í næstu viku vera mikinn, langt sé í næsta vaxtaákvörðunardag og það sé til mikils að vinna að bíða ekki með svo stóra ákvörðun.

Áhrif af stýrivöxtum tekur 12-18 mánuði 

Ingólfur segir að hliðarverkun af því að hagvaxtarhorfur hafi versnað sé að verðbólgan lækki og því séu miklar líkur á því að verðbólgan fari niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans á næsta ári, vextirnir bremsi hagkerfið hratt af. Hann segir brýnt að strax verði farið í lækkunina, bankinn þurfi að vera framsýnn í sínum aðgerðum. Samtökin kalli sömuleiðis eftir því að verðbólgan verði metin eins og hún kemur til með að vera á næstu tveimur árum og hagvaxtarskilyrði á þeim tíma. „Áhrifin af stýrivöxtunum tekur alveg 12-18 mánuði að hafa áhrif. Að vera bregðast við verðbólgu eins og hún var í síðasta mánuði eða þá verðbólgu eins og hún kemur til þess að vera í næsta mánuði er ekki rétt peningastjórnun.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á viðtalið við Ingólf í Kastljósi.

Kastljós / RÚV, 12. nóvember 2025.

Kastljos-12-11-2025_1Bergsteinn Sigurðsson ræddi við Ingólf Bender í Kastljósi.