Fréttasafn



27. sep. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Tilefni til að lækka stýrivexti frekar

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í upphafi næstu viku til að ákvarða stýrivexti bankans og  verður tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar miðvikudaginn 2. október. Peningastefnunefndin hefur lækkað vexti bankans um 1,0 prósentur síðan í maí á þessu ári og eru meginvextir bankans nú 3,5%. Samtök iðnaðarins telja að full ástæða sé fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að stíga annað skref í lækkun stýrivaxta nú. Verðbólga og verðbólguvæntingar eru verðbólgumarkmið bankans og gefur það Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti til þess að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við niðursveifluna. Telja samtökin að dýpt niðursveiflunnar sem nú er hafin í efnahagslífinu velti m.a. á því hversu hratt verði brugðist við í hagstjórn. Skiptir þar miklu máli hvort peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti bankans nægjanlega hratt og mikið.

Líklegt að verðbólgan haldi áfram að hjaðna

Verðbólgan mælist nú 3,0% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands og hefur hún hjaðnað nokkuð undanfarið en hún var 3,6% í maí sl. Líklegt er að verðbólgan haldi áfram að hjaðna á næstunni. Ýmislegt styður þá þróun. Í fyrsta lagi hefur þensla snúist yfir í slaka í íslensku hagkerfi sem dregið hefur úr verðbólguþrýstingi. Í öðru lagi hefur gengi krónunnar haldist tiltölulega stöðugt síðustu mánuði eftir nokkra lækkun á seinni helmingi sl. árs. Í þriðja lagi hefur verðbólga hjaðnað í helstu viðskiptalöndunum undanfarið samhliða því að hægt hefur á hagvexti í mörgum þessara landa. Í fjórða lagi hjálpa kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem náðust á fyrri hluta árs til við að halda verðbólgu lágri. Í fimmta lagi hafa verðbólguvæntingar verið að lækka og eru nú í eða rétt við 2,5% verðbólgumarkmiði bankans sem gefa peningastefnunni góða kjölfestu og svigrúm nú til að milda niðursveifluna í efnahagslífinu með frekari lækkun stýrivaxta.

Verdbolga-og-styrivextir

Viðskiptablaðið, 27. september 2019.

Frettabladid.is, 27. september 2019.