Fréttasafn



26. nóv. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Trúverðugleiki Seðlabankans

Seðlabankinn á við trúverðugleikavandamál að stríða sem hefur birst í auknum verðbólguvæntingum að undanförnu og sést þetta í verðbólguvæntingum aðila á fjármálamarkaði, stjórnenda fyrirtækja og almennings. Þetta skrifar Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í Morgunblaðinu um helgina. Ingólfur segir að verðbólguvæntingar séu nú yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans á alla mælikvarða. Hafi verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað um tæplega 1½ prósentu frá því fyrir ári og álagið til fimm og tíu ára 4,1-4,2% rétt fyrir fund peningastefnunefndar fyrr í þessum mánuði, langt yfir verðbólgumarkmiði bankans. Hann segir því virðast sem kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið peningastefnunnar hafi veikst umtalsvert. 

Gæti sleppt verðbólguskotinu í gegn án hækkunar stýrivaxta

Ingólfur segir jafnframt að ef peningastefnan hefði trausta kjölfestu í trúverðugu verðbólgumarkmiði þá ætti verðbólguskot, eins og nú er, ekki að hafa áhrif á verðbólguvæntingar til lengri tíma. Við slíkar aðstæður gæti Seðlabankinn sleppt verðbólguskotinu í gegn án hækkunar stýrivaxta en það sé hins vegar ekki staðan nú. Vegna aukinna verðbólguvæntinga finni bankinn sig knúinn til að hækka stýrivexti á sama tíma og hagkerfið er að sigla inn í niðursveiflu en peningastefnunefnd bankans hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig fyrr í þessum mánuði. 

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.