Tryggja þarf traustar og réttar upplýsingar um alþjóðaviðskipti
Í krísum undanfarinna ára og áratuga hefur oftar en ekki komið í ljós að hagtölur hafa ekki reynst áreiðanlegar. Áður en gengið er til samninga þarf að greina hagsmuni vel og ná yfirsýn til að ná fram sem bestri niðurstöðu. Til þess þarf áreiðanleg gögn og upplýsingar. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í ViðskiptaMogganum. Hann segir að nú hafi taktur alþjóðavæðingar breyst en Bandaríkin hafi lagt aukna tolla á innflutning með nýrri tollastefnu. Undanfarna mánuði hafi stjórnvöld í mörgum ríkjum, þar á meðal á Íslandi, óskað eftir samtali við bandarísk stjórnvöld með það fyrir augum að lækka tolla. Ingólfur segir að í þessari stöðu þurfi stjórnvöld að gera gangskör að því að fá yfirsýn yfir utanríkisviðskipti Íslands en komið hefur í ljós að upplýsingar þar að lútandi séu ekki réttar og það skorti yfirsýn.
Umskipanir snúa viðskiptaafgangi í halla
Í grein sinni segir Ingólfur að í byrjun ágúst hafi bandarísk stjórnvöld tilkynnt að vörur frá Íslandi myndu bera 15% toll í stað 10% áður og að bandarísk stjórnvöld hafi haldið því fram að endurmat gagna sýndi viðskiptahalla Bandaríkjanna gagnvart Íslandi og því hafi tollurinn verið hækkaður. Samkvæmt tölum bandarískra stjórnvalda hafi samanlagður viðskiptahalli gagnvart Íslandi numið um 73 milljörðum króna frá árinu 2022. Til samanburðar sýni tölur Hagstofu Íslands 14 milljarða króna viðskiptaafgang á sama tímabili. Ingólfur segir að endurmatið byggist á því að hluti af íslenskum vöruútflutningi fari ekki beint til Bandaríkjanna, heldur í gegnum önnur ríki þar sem vörunum sé umskipað áður en þær eru fluttar áfram. Þegar tekið sé tillit til þessara umskipana reynist útflutningur frá Íslandi til Bandaríkjanna meiri en áður hafi verið talinn. Þetta snúi niðurstöðu Bandaríkjanna um viðskiptaafgang gagnvart Íslandi í halla.
Talnaóreiða sem flækir málin í tollastríði
Þá segir Ingólfur í greininni að þessi viðsnúningur í tollaákvörðun bandarískra stjórnvalda veki upp spurningar um gæði gagna sem ætlað sé að sýna vöruskipti á milli landa. Tölur sem byggi á skráðum flutningsleiðum gefi einungis brot af heildarmyndinni. Tölur sem taki tillit til umskipunar fangi raunveruleg viðskipti betur. Hann segir að þessu til viðbótar séu tölur um vöruviðskipti á milli landa afar ólíkar eftir því hvaðan þeirra sé aflað. Þannig sé skráður vöruútflutningur héðan til viðskiptalandanna annar en oft sé gefinn upp í hagstofutölum þeirra landa sem flutt sé til. Ingólfur segir að þar get oft munað miklu sem skapi talnaóreiðu og flæki málin, ekki síst þegar tekist sé á um þessa þætti í tollastríði. Hann segir að vara geti samanstaðið af íhlutum frá mörgum löndum, verið framleidd í einu, flutt í gegnum annað og endanlega neytt í þriðja. Ingólfur segir að best væri ef fyrir lægju upplýsingar sem lýsi þessu vel en raunin sé hins vegar því miður sú að þannig sé það ekki.
Stjórnvöld setji samkeppnishæfni í forgang
Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur að íslensk stjórnvöld þurfi að setja samkeppnishæfni í algjöran forgang til að auka útflutning og styrkja lífskjör landsmanna. Til þess að þau geti sinnt því vel þurfi að tryggja traustar og réttar upplýsingar um alþjóðaviðskipti. Ónákvæm gögn og gagnaóreiða geti haft bein áhrif á útflutningsskilyrði og þar með rekstrarskilyrði fyrirtækja. Hann segir að mikilvægt sé að stjórnvöld bæti úr þessu og styrki þar með grundvöll hagsmunabaráttu fyrir íslensk fyrirtæki á alþjóðavettvangi.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
ViðskiptaMogginn, 20. ágúst 2025.