Fréttasafn



26. jún. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Tryggjum að næsta uppsveifla verði gjöful

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag og segir að nú þegar hagkerfið sigli inn í samdrátt sé það áleitin spurning á hverju við byggjum næsta hagvaxtarskeið. Með réttum aðgerðum megi milda niðursveifluna og tryggja að næsta uppsveifla verði gjöful. Með sterkri samkeppnishæfni atvinnulífsins megi auka velferð og bæta lífsgæði og í því sambandi þurfi skýra framtíðarsýn. 

Ingólfur segir í grein sinni að við viljum að verðmætasköpunin verði drifin áfram af sjálfbærri nýtingu auðlinda, mikilli nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum sem uppfylli þarfir samfélagsins og skilvirkt, hagkvæmt og stöðugt starfsumhverfi. Hann segir Ísland vera mjög háð erlendum viðskiptum og nýliðin efnahagsuppsveifla hafi verið í því sambandi, líkt og flestar aðrar uppsveiflur í íslenskri efnahagssögu, drifin áfram af auknum gjaldeyristekjum. Sagan kenni að ef við viljum skara fram úr litið til framtíðar verðum við að skapa og nýta viðskiptatækifærin til að auka útflutningstekjur.

Í greininni kemur fram að árangursríkast sé að skapa þær gjaldeyristekjur sem auka innlenda verðmætasköpun hvað mest því þannig aukum við efnahagsleg lífsgæði í landinu. Hann segir nýsköpun sem felist í að breyta hugmyndum í verðmæti sé lykillinn að auknum gjaldeyristekjum og hagvexti í framtíðinni. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins grundvallist nú að stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda og vegna takmarkaðs umfangs og mikillar nýtingar þessara auðlinda landsins verði hagvöxtur framtíðarinnar að byggja í auknum mæli á hátækniframleiðslu og -þjónustu til útflutnings.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.