Fréttasafn8. sep. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Umtalsverður samdráttur í íslenskum framleiðsluiðnaði

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, flutti erindi á aðalfundi Málms síðastliðinn föstudag þar sem hann fjallaði um stöðuna í efnahagslífinu og íslenskan framleiðsluiðnað sem nú tekst á við umtalsverðan samdrátt á innlendum og erlendum mörkuðum. Hann sagði flestar greinar framleiðsluiðnaðar upplifa samdrátt þó þróunin sé ólík eftir greinum. 

Ingólfur sagði að á móti samdrættinum komi að gengi krónunnar hafi gefið nokkuð eftir undanfarið sem skapi fyrirtækjunum sterkari samkeppnisstöðu gagnvart erlendum keppinautum. Það hafi þó ekki nægt til að vega upp á móti minni eftirspurn. „Skýr merki eru um samdrátt í greininni en fyrirtækjum fer nú fækkandi og velta hefur dregist saman. Það mælist um 6% fækkun fyrirtækja í greininni og viðlíka samdráttur mælist í veltu.“ 

Þá sagði hann að fyrirtækin hafi mætt samdrættinum með hagræðingu en fjöldi starfandi í greininni hefur dregist saman og atvinnulausum fjölgað. „Starfandi í greininni hefur fækkað um ríflega 6% yfir síðustu 12 mánuði og atvinnulausum í greininni fjölgað úr 600 í 1.200 á einu ári.“  

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum.