Upprunaábyrgðir skaða ímynd Íslands
Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ímynd Íslands er yfirskrift á grein sem Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, skrifar í Fréttablaðinu í dag. Hún segir nýting umhverfisvænnar orku skapi Íslandi afgerandi sérstöðu meðal þjóða heims, sem lítið hagkerfi eigi Ísland einnig allt undir í utanríkisviðskiptum. Ísland sé eitt örfárra landa í heiminum sem geti markaðssett sig sem land hreinnar, endurnýjanlegrar orku. Raforkan sem hér sé framleidd sé 99,9% endurnýjanleg orka og sé öll orkan nýtt til verðmætasköpunar innanlands. Þessi staða geri það að verkum að Ísland hafi gríðarlegt náttúrulegt samkeppnisforskot í harðri alþjóðlegri samkeppni þegar umhverfis- og loftslagsmál eru í brennidepli og ríki heims keppist við að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum.
Orkusamsetning í opinberum tölum breytist með sölu ábyrgðanna
Sigríður segir að sala upprunaábyrgða raforku grafi undan þessari sérstöðu. Með sölu upprunaábyrgða inn á evrópskan markað sé íslenskum orkufyrirtækjum skylt, við upplýsingagjöf um raforkusölu sína, að skipta upplýsingum um endurnýjanlegan uppruna út fyrir upplýsingar sem endurspegla samsetningu orkugjafa í Evrópu. „Hvað þýðir þetta? Jú, þetta hefur það í för með sér að með sölu ábyrgðanna breytist uppgefin orkusamsetning í opinberum tölum hér á landi og samkvæmt þeim upplýsingum mætti ætla að á Íslandi væri uppruni raforku 55% jarðefnaeldsneyti, 34% kjarnorka og einungis 11% endurnýjanleg orka. Þetta er alls ekki raunin, heldur afleiðing þess að íslensk orkufyrirtæki selja upprunaábyrgðir úr landi. Þetta getur valdið ruglingi í upplýsingagjöf og skilaboðum út á markaði. Það eitt og sér skaðar hagsmuni Íslands. Þetta gerir útflutningsfyrirtækjum erfiðara fyrir í markaðssetningu á vörum og þjónustu. Þetta skaðar ímynd Íslands sem land hreinnar orku.“
Eigum ekki að selja frá okkur samkeppnisforskot á alþjóðlegum mörkuðum
Í greininni segir Sigríður að hér sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Íslensk stjórnvöld hafi um langt skeið markaðssett Ísland sem land hreinna orkugjafa, og gera enn, þrátt fyrir að sala íslenskra orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi kunni að standa í vegi fyrir slíkum fullyrðingum. Í besta falli rýri hún trúverðugleika þeirra. Hún segir að fyrirtæki alls staðar um heim horfi í auknum mæli til umhverfisáhrifa af sinni starfsemi og séu síauknar kröfur gerðar til þess að fyrirtæki starfi í sátt og samlyndi við umhverfi og samfélag. „Jákvæð ímynd Íslands á þessu sviði gagnast ekki eingöngu orkufyrirtækjum og orkusæknum iðnaði heldur getur hún nýst í allri markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu á erlendri grundu. Það má ekki vera vafi á því að íslensk fyrirtæki geti nýtt sér þetta samkeppnisforskot á alþjóðlegum mörkuðum. Við eigum ekki að selja það frá okkur. Forsætisráðherra orðaði þetta vel þegar hún varpaði fram þessari spurningu í ræðu á Viðskiptaþingi 2018: „Hver vill ekki selja fisk frá kolefnishlutlausu landi?“ Þetta eru hagsmunirnir sem eru undir.“
Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni.