Fréttasafn22. mar. 2018 Almennar fréttir

Vægi byggingariðnaðar tvöfaldast m.a. vegna erlendra ferðamanna

Vægi byggingariðnaðar í landsframleiðslu hefur tvöfaldast í umfangi á tíma uppsveiflu í tekjum af erlendum ferðamönnum og farið úr ríflega 4% af landsframleiðslu í að vera um 8%. Má rekja það að stórum hluta til þeirra auknu fjárfestinga sem hefur verið í ferðaþjónustunni og tengdri starfsemi frá 2010. Síðastliðin þrjú ár hefur upphæðin numið 263 milljörðum króna sem er um 17% af heildarfjárfestingu í hagkerfinu á þeim tíma. Það er mun hærra hlutfall en í öðrum ríkjum Evrópu þar sem hlutfallið er um 4,5%. Þetta kom meðal annars fram í erindi Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, á Ferðaþjónustudeginum sem haldinn var í Silfurbergi í Hörpu í gær. Erindi Ingólfs bar yfirskriftina Efnahagsleg fótspor ferðamanna. 

Einnig kom fram í máli hans að miklar og hratt vaxandi tekjur af erlendum ferðamönnum hafa á síðustu árum verið bjargvættur í íslensku efnahagslífi. Hann sagði tekjurnar eiga stóran þátt í að draga þjóðina upp úr efnahagslegum öldudal í að vera meðal best stæðu þjóðum veraldar í efnahaglegu tilliti.

Ingólfur sagði efnahagsleg fótspor ferðamanna stór og finnast víða í samfélaginu. Ekki einungis hafi tekjur af ferðamönnum bætt fjárhagslega stöðu í ferðaþjónustu heldur fjölmörgum öðrum greinum hagkerfisins, þar með talið í iðnaði. Meðal annars hafi fjárfestingar á síðustu 3 árum verið tæplega 98 milljarðar króna í hótelum og 113 milljarðar króna í flugvöllum og flugsamgöngum.  

Hann benti einnig á að fjáfesting og viðhald í vegamálum hafi setið eftir í uppbyggingu Íslands sem ferðamannastaðar undanfarin ár. Ríki og sveitarfélög hafi lítið ráðstafað til þeirrar uppbyggingar þrátt fyrir að vegasamgöngur séu nú með tilkomu ferðamanna orðin stærri þáttur í gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun þjóðarbúsins en áður. Hann sagði ferðaþjónustuna hvíla á samgöngum og að nú yrði að fara í stórátak á þessu sviði til efla þjónustu og öryggi ferðamanna og landsmanna allra. Með því væri rennt stoðum undir frekari verðmætasköpun á þessu sviði. 

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs.

Ingolfur_saf_ferdathjonustudagurinn_2018-21

Hér er hægt að horfa á erindi Ingólfs sem hefst á 45. mínútu. 


YouTube

Ingolfur_saf_ferdathjonustudagurinn_2018-17