Væntingar norræns atvinnulífs til COP30-viðræðnanna
Samtök iðnaðarins auk systursamtaka á Norðurlöndunum hafa gefið út yfirlýsingu um helstu áherslur og væntingar norræns atvinnulífs til COP30-viðræðnanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að norrænt atvinnulíf sé staðfast í skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsamkomulaginu og loftslagsmarkmiðum ESB fyrir árið 2030, með það að markmiði að ná núll losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050. Samtökin sem um ræðir auk Samtaka iðnaðarins eru Dansk Industri, EK í Finnlandi, NHO í Noregi og Svenskt Näringsliv.
Yfirlýsingin fer hér í heild:
Samstarf þjóða er nauðsynlegt til að takast á við loftslagsáskoranirnar. ESB þarf að sýna fram á með stefnumótun að baráttan gegn loftslagsbreytingum og efnahagsleg samkeppnishæfni geti farið saman. Alþjóðasamfélagið er hvatt til að fylgja þessu fordæmi með metnaðarfullum aðgerðum. Sterkt, framtíðarmiðað og metnaðarfullt COP30-samkomulag er lykilatriði til að ná þessum markmiðum.
Helstu áherslur
✓ Haga stefnumörkun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið
✓ Efla mótvægisaðgerðir
✓ Setja á laggirnar alþjóðleg viðskiptakerfi
✓ Setja alþjóðleg kolefnisverð
✓ Nýta hringrásarhagkerfið sem lykiltæki til að draga úr losun
✓ Virkja nýtingu loftslagsfjármagns
Setja þarf markið hátt
Nýjustu skýrslur Sameinuðu þjóðanna, WMO og IEA sýna að við erum ekki á réttri leið til að halda hækkun á meðalhitastigi jarðar undir 1,5–2°C. Allar þjóðir eru hvattar til að taka þetta til greina í uppfærðum landsmarkmiðum sínum (NDCs) fyrir COP30 og efla loftslagsaðgerðir. ESB mun árið 2025 kynna loftslagsmarkmið fyrir 2040, með áfanga árið 2035. Öll norrænu samtökin styðja þetta framtak og hvetja ESB til að viðhalda leiðtogahlutverki sínu.
Efla aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum
Norrænt atvinnulíf hefur áhyggjur af áframhaldandi aukningu í losun og hnattrænu hitastigi. Það leggur áherslu á að hrinda í framkvæmd áætlunum um kolefnislausan iðnað, umbætur í fjármálakerfum og aukinn viðnámsþrótt gegn loftslagsáföllum. COP28-samkomulagið um að draga úr jarðefnaeldsneytisnotkun, auka endurnýjanlega orku og bæta orkunýtni fyrir 2030 verðu að innleiða tafarlaust. Til þess þarf stöðugt regluumhverfi sem stuðlar að langtímafjárfestingum í grænni umbreytingu.
Virkja meira loftslagsfjármagn
Loftslagsfjármögnun er stærsta tækið til að knýja loftslagsaðgerðir áfram. Á COP29 var samþykkt að þrefalda flæði fjármuna frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja upp í 300 milljarða USD fyrir 2035 og móta svokallaða Baku-Belém áætlun til að afla alls 1,3 trilljóna USD. Aðeins einkafjárfestingar og markaðsöfl geta náð þessu umfangi. orrænt atvinnulíf hvetur til þess að þessi áætlun verði útfærð á COP30 með nýstárlegum leiðum til að örva fjármögnun, til dæmis með blönduðu fjármagni sem dregur úr áhættu einkafjárfesta.
Setja alþjóðleg kolefnisverð
Brýn þörf er á markaðslausnum til að setja alþjóðlegt CO₂-verð. Evrópa innleiddi viðskiptakerfi með losunarkvóta (EU ETS) árið 2005 og það mun ná til meira en 80% af losun ESB árið 2030. Kerfið hefur sýnt sig sem hagkvæmt tæki til að draga úr losun. Því ætti COP30 að styðja við frekari þróun markaðskerfa og innleiðingu einfalds og gagnsæs kerfis sem stuðlar að hnattrænni markaðsdýnamík.
Nýta kolefniseiningar
Á COP29 voru samþykktar reglur um viðskipti milli ríkja og nýtt kerfi undir Parísarsamkomulaginu, svokallað Paris Agreement Carbon Crediting Mechanism (PACM). Mikilvægt er að hrinda því í framkvæmd og styrkja eftirlitsnefnd greinar 6.4 með nægilegu fjármagni. Norrænt atvinnulíf styður að hágæða kolefniseiningar verði samþættar inn í kerfi ESB til að auka hagkvæmni og hraða kolefnislausnum, án þess að draga úr markmiðum ESB.
Nýta hringrásarhagkerfið sem lykiltæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
Hringrásarhagkerfið verður að fá viðurkenningu sem lykiltæki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það stuðlar að hagvexti innan vistfræðilegra marka. Þrátt fyrir að mikið hafi verið gert á svæðisbundnum vettvangi, er enn mikill ónotaður möguleiki til alþjóðlegra aðgerða. Samningamenn á COP30 verða að tryggja að hringrásarhagkerfi, líftæknilausnir og ný viðskiptalíkön verði viðurkennd sem ómissandi hluti af lausninni.
Tryggja alþjóðlega græna umbreytingu í samræmi við markmið 2030
Græna umbreytingin verður að vera réttlát og þátttaka þeirra sem mest verða fyrir loftslagsbreytingum er lykilatriði. Einkageirinn hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna. Norrænt atvinnulíf leggur áherslu á að losunartakmarkanir eigi að skapa störf og velmegun sem geri umbreytinguna réttlátari. Umhverfisframfarir og efnahagsvöxtur eru samverkandi markmið.
Samantekt
Heimurinn nær ekki að leysa loftslagsvandann án alþjóðlegs samstarfs. Þrátt fyrir að Evrópskt atvinnulíf dragi verulega úr losun þarf alþjóðleg viðskiptakerfi, alþjóðleg kolefnisverð og meira fjármagn til að hrinda loftslagsaðgerðum í framkvæmd og koma heiminum aftur á rétta braut í átt að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þess vegna verður Evrópa að þrýsta á að þetta komist á í Belém og, ekki síst, stuðla að viðskiptum með þátttöku líkt og við gerðum áður.
Norrænt atvinnulíf óskar samningsaðilum góðs gengis í þessu mikilvæga verkefni fyrir mannkynið.
Hér er hægt að nálgast yfirlýsinguna á ensku.

