Fréttasafn



20. mar. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Menntun Orka og umhverfi Samtök rafverktaka

Vantar á annað þúsund rafvirkja og rafeindavirkja

Í Fréttablaðinu kemur fram að ætla megi að á annað þúsund rafvirkja og rafeindavirkja vanti til starfa hér á landi ef markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi á að ganga eftir fyrir árið 2040. Þetta hafi komið fram í ávarpi Hjörleifs Stefánssonar, formanns Samtaka rafverktaka (SART), á ráðstefnu sem bar yfirskriftina Orkumál – horft til framtíðar. Þar vitnaði hann í fulltrúa frá sænskum systursamtökum SART sem segir að þar í landi vanti 30 þúsund raftæknimenntaða iðnaðarmenn til starfa til að geta mætt loftslagsmarkmiðum sænsku ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Jafnframt segir í Fréttablaðinu að á ráðstefnunni hafi einnig komið fram í máli Þórs Pálssonar, framkvæmdastjóra Rafmenntar, að iðnskólarnir á Íslandi séu nú þegar keyrðir á fullum afköstum en þeir fullnýti fjárveitingar sem þeir fái til kennslu í iðngreinum. Fyrir vikið sé svo komið að fjölmargir komist ekki að í náminu því skólarnir hafa ekki fjármagn til að taka við fleiri nemendum. 

Thor-Palsson-RafmenntSkólarnir þurfa meiri fjármuni til að skila fleiri faglærðum í rafiðn 

Þá segir að fram hafi komið á ráðstefnunni að 120 til 150 manns ljúka að jafnaði sveinsprófi í rafiðngreinum á ári. Á sama tíma séu hins vegar um það bil 100 rafiðnaðarmenn sem fara á eftirlaun þannig að nettó fjölgun í greininni sé sáralítil. Af þeim sem taki sveinspróf sé svo allt að fimmtungur sem heldur áfram í framhaldsnám þannig að einungis sé um að ræða árlega fjölgun um 10 til 5 rafiðnaðarmenn. „Það er því ljóst að ef á að ná markmiðum um kolefnishlutleysi þarf að fjölga rafiðnaðarfólki og þá þurfa skólarnir meiri fjármuni til að geta skilað fleiri faglærðum í rafiðn út á vinnumarkaðinn,“ segir Þór Pálsson, framkvæmdastóri Rafmenntar í Fréttablaðinu.


Fréttablaðið / Frettabladid.is, 18. mars 2023.