Fréttasafn



4. okt. 2024 Almennar fréttir Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Vaxandi hlutverk menntatækni í íslenskum skólum

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, flutti erindi á Menntakviku Háskóla Íslands þar sem sjónum var beint að stöðugt vaxandi hlutverki menntatækni í íslenskum skólum. Hulda Birna sagði í erindi sínu að tækniþróun hafi haft mikil áhrif á kennslustofur, og menntatæknilausnir sem byggi á nýsköpun og rannsóknum séu nú notaðar til að tengja saman nemendur, kennara, foreldra og samfélagið.

Hulda Birna lagði áherslu á að nýsköpun í menntatækni væri ekki til þess fallin að útrýma hefðbundnum kennsluháttum, heldur að bæta þá. Lausnirnar sem séu í boði bæta fjölbreytileika í kennslu og námsmati, með innbyggðum rauntímaúttektum sem veiti kennurum innsýn í stöðu nemenda. Þetta geri kennurum kleift að stýra kennslunni á sveigjanlegan hátt sem sé sniðið að þörfum hvers og eins nemanda.

Erindið fjallaði einnig um nýsköpunarferlið sjálft, þar sem menntatæknifyrirtæki vinna að þróun lausna með það að leiðarljósi að mæta nýjum og áður óleystum þörfum, bæði á íslenskum markaði og alþjóðavettvangi. Hulda Birna nefndi mikilvægi þess að menntatæknilausnir sem hafa farið í gegnum strangt gæðamat séu byggðar á rannsóknum og að kennarar hafi í áratugi kallað eftir slíkum lausnum. Íslensk fyrirtæki á þessu sviði hafi fengið styrki til nýsköpunar í gegnum tækniþróunarsjóði og séu nú að marka sér stöðu á alþjóðavettvangi.

Í erindinu kom Hulda Birna inn á það hvernig menntatæknilausnir geti spilað lykilhlutverk í framtíðarsýn íslensks menntakerfis, sérstaklega þegar komi að rauntímanámsmati. Hún velti upp spurningunni Hvað ef við nýtum þessi tækifæri í íslenskum grunnskólum, með lausnum sem aðlagaðar eru að hverjum og einum nemanda? Hún sagði þetta gæti skapað grundvöll fyrir einstaklingsmiðað nám og nýja nálgun við kennsluaðferðir sem mæti þörfum framtíðarinnar.

Þá sagði Hulda Birna að mikilvægt væri að halda áfram að þróa og meta gæði þeirra menntatæknilausna sem væru notaðar í skólum og nauðsynlegt væri að þessar lausnir styðji við bæði nemendur og kennara til að tryggja að íslenskt menntakerfi sé í fremstu röð.

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir.