Vaxandi hugverkaiðnaður styrkir efnahag Íslands að mati Fitch
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur tilkynnt að horfur fyrir lánshæfi ríkissjóðs Íslands hafi verið uppfærðar úr stöðugum í jákvæðar. Lánshæfiseinkunnin A er óbreytt, en breytingin á horfunum endurspeglar traust á áframhaldandi styrkingu efnahagslífsins. Samtök iðnaðarins fagna uppfærsla Fitch á horfum Íslands í jákvæðar og telja samtökin það vera afrakstur stórhuga frumkvöðla og stefnumörkunar stjórnvalda sem hafa með skattahvötum ýtt undir fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun.
Vaxandi fjölbreytni í efnahagslífinu
Í greiningu Fitch kemur fram að jákvæðar horfur endurspegla að stoðum efnahagslífsins sé að fjölga, meðal annars vegna vaxtar í hugverkaiðnaði, greina með mikla framleiðni s.s. í lyfjaiðnaði, upplýsingatækni og líftækni. Einnig er bent á vaxandi starfsemi gagnavera á Íslandi, sem styrkir útflutningstekjur og skapar verðmæt störf.
Lægri fjármagnskostnaður fyrir ríki og fyrirtæki
Jákvæðar horfur auka líkur á hækkun lánshæfiseinkunnar Íslands á komandi árum. Slíkt myndi þýða hagstæðari lánskjör fyrir ríkissjóð, fyrirtæki og heimili, og stuðla að aukinni fjárfestingu og uppbyggingu.
Iðnaðurinn lykilþáttur í efnahagsstyrk
Á Iðnþingi 2023 kom fram í samtali Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og Benedikts Gíslasonar, forstjóra Arion banka, hversu þjóðhagslega mikilvægt það er að byggja upp blómlegan hugverkadrifinn iðnað á Íslandi og að það ætti að hækka lánshæfiseinkunn Íslands og bæta vaxtakjör. Nýjasta mat Fitch staðfestir þá sýn – að vaxandi hlutdeild hugverkaiðnaðar og gagnavera sé að styrkja íslenskan efnahag og auka alþjóðlegt traust á landinu.
Hugverkaiðnaður hefur alla burði til þess að verða verðmætasta stoð útflutnings Íslands í lok þessa áratugar. Lítið og opið hagkerfi eins og Ísland á allt undir sterkum og fjölbreyttum útflutningi. Útflutningurinn þarf að vaxa ef við ætlum að standa undir áframhaldandi öflugu velferðarsamfélagi.
Það er mat Samtaka iðnaðarins að stærsta tækifærið í þeim efnum sé í hugverkaiðnaði en með honum verður íslenskt hagkerfi sífellt meira drifið áfram af fjárfestingu í nýsköpun í stað takmarkaðra náttúruauðlinda. Að sama skapi verða stjórnvöld að auka samkeppnishæfni annarra útflutningsgreina til að styrkja efnahag Íslands enn frekar nú þegar óvissa ríkir á alþjóðamörkuðum og viðskiptakjör versna. Framleiðsla verðmæta og sala á erlenda markaði er undirstaða lífskjara í landinu og því geta verri viðskiptakjör leitt til lakari lífskjara.