Fréttasafn



27. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Vaxandi samdráttur í íbúðum í byggingu

Samkvæmt nýrri greiningu á talningu Samtaka iðnaðarins eru um 5.400 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. 11% samdráttur mælist á höfuðborgarsvæðinu frá vortalningunni árið 2019, þar af 42% á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Bendir talningin til þess að meðalsölutími nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu sé á uppleið en aukning er í fullgerðu húsnæði sem ekki hefur verið flutt inn í. Leita þarf aftur til áranna 2011-12 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu íbúða innan höfuðborgarinnar. Nokkuð meiri samdráttur mælist innan nágrannasveitarfélaga en á höfuðborgarsvæðinu eða um 20% frá vortalningunni árið 2019 samanborið við 11% innan höfuðborgarinnar.

Ibudir-i-byggingu-a-hofudborgarsvaedinu_1585277111308

11% færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu

Tæplega 4.500 íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt talningu SI. Mælist samdrátturinn um 11% frá vortalningunni árið 2019 samanborið við 22% aukningu milli áranna 2018 og 2019. Leita þarf aftur til áranna 2011-12 til að finna viðlíka samdrátt í íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Mestu munar um samdráttinn innan Reykjavíkur og Kópavogs en um 75% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru innan þessara sveitarfélaga. Nemur samdrátturinn 3% innan Reykjavíkur milli mars 2019 og 2020 og 19% innan Kópavogs. Markar það mikinn viðsnúning frá fyrri árum en 53% aukning mældist í Reykjavík milli áranna 2018 og 2019 svo dæmi séu tekin. Um 94% íbúðabygginga á höfuðborgarsvæðinu eru í fjölbýli. Endurspeglar niðurstaðan þéttingarstefnu stærstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en ríflega helmingur íbúða í byggingu í Reykjavík og Kópavogi eru á þéttingarreitum.

Minna framboð nýbygginga framundan

Ibudir-i-byggingu-a-fokheldu

Samkvæmt talningu SI eru 1.490 íbúðir á byggingarstigi 2 og 3 á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að fokheldu. Nemur það 42% samdrætti frá talningunni í mars árið 2019. Tölurnar bera vott um mikinn viðsnúning í umsvifum en 25% aukning mældist milli vortalninga áranna 2018 og 2019.

Í talningum SI er íbúðarhúsnæði talið í byggingu þegar sökkull hefur verið reistur, þ.e. undirstöður byggingar. Byggingum á byggingarstigi 2 hefur fækkað til muna síðustu tvö árin eða um 65% frá árinu 2018. Álykta má því að nokkur minnkun sé framundan í framboði nýbygginga miðað við það sem hefur verið.

Fjölgun er hins vegar í íbúðum sem eru fokheldar og lengra komnar. Þær eru nú 2.962 sem er fjölgun um 22% frá vortalningu 2019 og 6% frá hausttalningunni 2019. Hluti þessara íbúða eru þegar fullbúnar og komnar í sölu en samkvæmt talningunni eru 722 íbúðir sem ekki hefur verið flutt inn í. Nemur það 16% af heildarfjölda íbúða í talningunni sem er umtalsverð aukning frá 2019. Gefur þetta til kynna hækkandi meðalsölutíma nýbygginga. 

20% færri íbúðir í byggingu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins

941 íbúð eru í byggingu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Nemur samdrátturinn um 20% frá talningu í mars 2019 sem er nær tvöfalt á við samdráttinn á höfuðborgarsvæðinu frá sömu talningu. 44% samdráttur er í íbúðum á byggingarstiginu „að fokheldu“ sem er í takt við þróunina á höfuðborgarsvæðinu. 52% íbúða í talningu í nágrannasveitarfélögum eru í fjölbýli. Það er þó nokkuð frábrugðið frá höfuðborgarsvæðinu þar sem 94% eru í fjölbýli. Endurspeglar þetta m.a. hátt lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu og mismunandi áherslur sveitarstjórna.

Fjöldi íbúða í byggingu á Norðurlandi eykst 

Samtök iðnaðarins hófu talningu á íbúðum í byggingu á Norðurlandi í mars árið 2010. Uppbyggingin hefur verið nokkuð sveiflukennd frá þeim tíma en fjöldi íbúða í byggingu nú eykst milli ára um 9%. Fjöldi íbúða að fokheldu eykst um 90% milli talninga sem gefur til kynna aukin umsvif í nýbyggingum á Norðurlandi.

Spá um færri fullbúnar íbúðir

Ibudar-i-byggingu-spa

Talning SI á íbúðum í byggingu hefur undanfarin ár borið með sér að framundan væri vaxandi fjöldi fullbúinna íbúða að fara á markað. Ákveðin vatnaskil urðu í þeim efnum í september-talningu SI á síðasta ári en sú talning benti til þess að fjöldi fullbúinna íbúða myndi fækka á næstu misserum. Talning SI nú sýnir þessa þróun einnig en að fækkun fullbúinna íbúða verði enn meiri en fyrri spá SI gerði ráð fyrir.Í nýrri spá SI nú í mars 2020 er gert ráð fyrir að 2.107 íbúðir verði fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum á þessu ári. Það eru rúmlega 30% færri fullbúnar íbúðir en SI spáðu fyrir árið 2020 í mars árið 2019. Samkvæmt nýrri spá verða þá enn færri íbúðir fullbúnar á árinu 2021 eða 1.948 sem er rúmlega 40% samdráttur frá vorspánni 2019. Út frá talningunni á Norðurlandi má reikna með því að fullbúnar íbúðir verði 221 í ár og 244 á næsta ári.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI á nýrri talningu.