Fréttasafn13. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fjölmennur fundur Samtaka sprotafyrirtækja

Fjölmennt var á aðalfundi Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, sem haldinn var í gær í Innovation House á Eiðistorgi. Erlendur Steinn Guðnason hjá Vizido, var kjörinn formaður stjórnar SSP. Aðrir í stjórn eru Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hjá CRI, Íris Ólafsdóttir hjá Kúla 3D, Fida Abu Libdeh hjá Geosilica, Iðunn Jónsdóttir hjá Modulus, Kristinn Aspelund hjá Akkeri og Oddur Sturluson hjá Startup-Iceland.

Á fundinum kynnti Erlendur Steinn starfsemi SSP sem hefur verið starfsgreinahópur innan SI síðastliðin 13 ár en innan SSP eru um 70 fyrirtæki. Fyrirtæki innan SSP eru góður þverskurður tækni- og hugverkafyrirtækja úr ólíkum starfsgreinum, s.s. upplýsingatækni, leikjaiðnaði, líftækni, orku- og umhverfis­tækni, heilbrigðisiðnaði/-tækni, matvælatækni, véltækni og byggingartækni. Tækni- og hugverkaiðnaður er ein af fjórum meginstoðum íslensks atvinnulífs sem skilar 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og hefur náð að halda sínum hlut í heildarútflutningi undanfarin ár þrátt fyrir mikinn vöxt í ferðaþjónustunni. Erlendur Steinn fór yfir það helsta sem hafði gerst á árinu og sagði árið viðburðarríkt. Einnig vék hann að því sem væri framundan í því að efla fjármögnun sprotafyrirtækja.

Eftir að aðalfundarstörfum lauk var fundurinn opinn og bættust þá við nokkur fjöldi fundargesta þegar Stefán Þór Helgason, hjá KPMG, kynnti úttekt og tillögur til úrbóta í fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja sem koma fram í nýrri skýrslu KPMG. Einnig kynnti Jónas Páll Jakobsson, hjá Arion banka, samstarf bankans við European Investment Fund sem miðar að hagstæðum lánveitingum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja er hyggjast innleiða nýjungar í starfsemi sinni.

Viðtal við Stefán Þór Helgason, hjá KPMG, á mbl.is.

Aðgengi að skýrslu KPMG um fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja.