Vel sóttur fundur Yngri ráðgjafa um tækifæri í orkuöflun
Fundur Yngri ráðgjafa, YR, innan Félags ráðgjafarverkfræðinga um tækifæri í orkuöflun var vel sóttur en fundurinn fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær.
Baldur Reykdal, formaður Yngri ráðgjafa, var fundarstjóri. Hann kynnti starf YR og sagði frá fræðslustarfi, kynningarferðum o.fl. sem YR skipuleggja á hverju ári.
Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor, ræddi um tækifæri sólarorku á Íslandi og sagði frá starfsemi Alor orkulausna. Hún sagði frá því að mikill vöxtur er á sólarorkuframleiðslu í heiminum. Síðustu 30 ár hefur verið lítið um sólarorkuframleiðslu á Íslandi en undanfarin ár höfum við þurft að horfa til fleiri orkukosta. Hún sagði frá tækifærunum fyrir sólarorkuframleiðslu á Íslandi sem og helstu áskorunum. Þá sagði hún frá samstarfsverkefni um uppsetningu á einu stærsta sólarorkuveri landsins á þaki B26 auk rafhlöðuorkugeymslu.
Sigurgeir Björn Geirsson, verkefnisstjóri nýframkvæmda hjá Landsvirkjun, fjallaði um Búrfellslund við Vaðöldu sem verður fyrsta stóra vindorkuver Íslands. Við Vaðöldu verða settar upp 28 vindmyllur en í dag eru 4 vindmyllur á Íslandi. Hann fór yfir að tækninni í vindorkunni fleygi hratt fram. Hann ræddi undirbúninginn og uppbyggingu þekkingar fyrir verkefnið en þróunarvinnan var unnin með ýmsum innlendum og erlendum ráðgjöfum og sérfræðingum. Hann fór yfir fyrirhugaðar framkvæmdir, vegagerð, mannvirkjagerð og uppsetningu á búnaði sem og helstu áskoranir.
Þá kynnti Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, verkefnastýra leyfismála hjá Carbfix, skýrslu starfshóps fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Starfshópurinn lagði fram 50 tillögur sem skiptast í þrjá flokka, 1) stefnu og umgjörð, 2) skilvirkni og hvata og 3) bætta orkunýtni. Hún fjallaði m.a. um sólarorku/birtuorku og tækifærin á Íslandi, smávirkjanir fyrir vatnsafl og nýja orkukosti s.s. nýtingu sorps, nýtingu lífræns úrgangs og nýtingu lítilla vindtúrbína. Þá fór hún yfir helstu hindranir og tækifæri hvað nýja orkukosti varðar. Einnig talaði hún um bætta orkunýtni en mikil áhersla er á bætta orkunýtni í nágrannalöndum okkar. Ísland hefur hins vegar ekki sett markmið um bætta orkunýtni.
Góðar umræður mynduðust í lok hvers erindis.
Baldur Reykdal, formaður YR.
Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor.
Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, verkefnastýra leyfismála hjá Carbfix.
Sigurgeir Björn Geirsson, verkefnisstjóri nýframkvæmda hjá Landsvirkjun.