Verðbólgu þarf að ná niður með samstilltu átaki
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að samstillt hagstjórn Seðlabankans, ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sé lykilatriði til að ná niður verðbólgu án mikils kostnaðar fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í grein sinni í helgarútgáfu Morgunblaðsins sem ber yfirskriftina Verðbólgu þarf að ná niður með samstilltu átaki.
Sigurður segir að Samtök iðnaðarins telji að stýrivexti Seðlabankans þurfi að lækka. Núverandi vaxtastig sé mjög dýrkeypt fyrir samfélagið. Aðhaldsstig peningastefnunnar sé of mikið miðað við stöðu efnahagslífsins og sé þegar farið að hafa veruleg neikvæð áhrif á stöðu og þróun iðnaðar og atvinnulífs í heild. Hann segir að í umsögn SI um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026 komi fram að mikilvægt sé að ríkisfjármálin styðji betur við Seðlabankann í að ná verðbólgu nær 2,5% markmiði án harðrar lendingar hagkerfisins en Seðlabankann megi ekki skilja eftir einan á vellinum. Ríki og sveitarfélög verði að spila með. Sigurður segir að með markvissum aðgerðum þeirra sé hægt að draga úr verðbólgu og lækka vexti án þess kostnaðar sem núverandi peningalega aðhald gerir.
Þá kemur fram í grein Sigurðar að núverandi vaxtastig sé orðið þungur baggi að bera fyrir heimili og fyrirtæki og séu afleiðingarnar farnar að sjást í hagtölum sem sýni hægan hagvöxt og vaxandi atvinnuleysi. Áhrifanna gæti í iðnaði þar sem nú megi greina samdrátt, svo dæmi sé tekið sé starfsfólki nú að fækka í öllum helstu greinum iðnaðar. Hann segir að líkt og Samtök iðnaðarins hafi ítrekað bent á sé rót verðbólgu launaþróun og staða húsnæðismarkaðar.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Morgunblaðið / mbl.is, 11. október 2025.