Fréttasafn21. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Verðmætur kvikmyndaiðnaður ræktar vörumerkið Ísland

Einstök náttúra, íslenskt fagfólk með reynslu og skattalegir hvatar skapa Íslandi sérstöðu til að laða til sín erlend kvikmyndaverkefni og ætti ekki að setja hömlur á endurgreiðslur til kvikmyndagerðar líkt og greint hefur verið frá í fréttum. Þá ætti að stefna að því að auka enn frekar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þannig ræktum við vörumerkið Ísland og aukum eftirspurn eftir Íslandi og því sem frá landinu kemur. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Fréttablaðinu í dag. 

Veltan í atvinnugreininni aldrei verið meiri

Sigurður segir í greininni að framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni sé umfangsmikil atvinnugrein hér á landi og hafi veltan á síðasta ári aldrei verið meiri eða 20 milljarðar króna. Frá árinu 2010 hefur veltan í greininni fjórfaldast og á tímabilinu 2009-2016 er samanlögð velta orðin tæplega 100 milljarðar króna.

Þá kemur jafnframt fram að stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma geri það vegna þeirrar öflugu starfsemi sem hér er á þessum vettvangi hugverkaiðnaðar og skili þannig talsvert meiru til þjóðarbúsins en ofangreindar veltutölur sýna. Greinin eigi því stóran þátt í gjaldeyrissköpun landsins, hagvexti síðustu ára og atvinnusköpun.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.